Þriðjudagurinn 31. maí var mikill gestadagur í Safnahúsi. Meðal þeirra sem sóttu húsið heim var hópur frá Blindrafélaginu sem hlýddi þar á menningardagskrá á vegum Guðrúnar Ásmundsdóttur leikkonu. Þar var um margt fjallað s.s. Elísabetu Bretadrottingu og baróninn á Hvítárvöllum. Alexandra Chernyshova söng aríur og íslensk lög við undirleik Zsuzsönnu Budai og Ragnheiður Harpa Leifsdóttir og Birkir Brynjarsson tóku þátt í leikflutningi. Einnig sagði Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss frá Þórði á Mófellsstöðum í Skorradal, en hann var alblindur frá 7 ára aldri en varð samt sem áður þekktur fyrir smíðar sínar. Eitt safnanna í Safnahusi er Byggðasafn Borgarfjarðar og á það margt muna sem Þórður átti. Meðal þeirra er tommustokkur úr málmi sem er um margt sérstakur. Á honum eru hnúðar sem hægt er að þreifa á og finna út lengdir með þeim hætti. Gestir fengu að „sjá“ tommustokkinn og höfðu gaman af því að heyra um Þórð.
Ljósmyndir: Anna Þórhildur Gunnarsdóttir og Guðrún Jónsdóttir.
Comments are closed