Sparisjóður Mýrasýslu tók til starfa þann 1. október 1913.  Höfuðstöðvar hans voru alltaf í Borgarnesi,  fyrst í húsi Kaupfélags Borgfirðinga við Skúlagötu sem nefnt var Salka.  Er Kaupfélagið flutti starfsemi sína í verslunarhúsin í Englendingavík árið 1916 fylgdi sjóðurinn með og var þar fram til ársins 1920 að nýtt hús var byggt við Skúlagötu 14 (kallað Gamli sparisjóðurinn). Þar var starfsemi sparisjóðsins var á neðri hæð en íbúð gjaldkera hans á efri hæð.  Þarna var reksturinn til húsa í 42 ár eða allar götur til ársins 1962 að reist var nýbygging að Borgarbraut 14 sem flutt var inn í í lok september það ár.  Það hús var síðar stækkað og þar var starfsemin til ársins 2005 að hún var flutt í nýtt hús að Digranesgötu 2 þar sem nú er Arion banki. 

Í sviptingum ársins 2008 varð rekstur Sparisjóðsins ekki undanskilinn áföllum eins og kunnugt er og að lokum rann saga hans sitt skeið.  Á þessum tímamótum verður vitnað í orð Magnúsar Sigurðssonar á Gilsbakka sem lengi gegndi formennsku stjórnar Sparisjóðsins og ritar svo í formála að 90 ára sögu hans: „Á tímum eins og nú eru, þegar margt er á hverfanda hveli, innan héraðs og utan, er gott að glöggva sig á liðinni tíð – og forsendum þess, sem þá tókst vel, en þær voru fyrst og fremst samstaða hinna mörgu og smáu um verkefnin og þær hugmyndir sem þau voru byggð á.“ 

Eins og Magnús kom einnig inn á í nefndum formála er saga sparisjóðsins góður og gildur þáttur í sögu Borgarfjarðarhéraðs á tuttugustu öld. Því er hans minnst hér í tilefni dagsins.

Í tilefni þessa boðaði Arion banki í Borgarnesi fulltrúa Safnahúss á sinn fund á stofndegi sjóðsins þar sem nokkur merk gögn úr sögu hans voru afhent. Má þar sérstaklega nefna fyrstu sparisjóðsbókina og fyrsta ársreikninginn. Meira mun svo fylgja síðar. Við afhendinguna kom m.a. fram í máli Guðrúnar Jónsdóttur forstöðumanns Safnahúss að gögnum um sögu sparisjóðsins hafi verið haldið til haga í Arion banka og slíka ræktarsemi þætti mönnum vænt um fyrir hönd héraðsins þar sem starfsemi sparisjóðsins átti svo stóran þátt í sögu þess um langt skeið.

Fyrsta sparisjóðsbókin var í eigu Sigurðar Guðjónssonar Bachmann. Á umslagi með henni stendur eftirfarandi með rithönd Friðjóns Sveinbjörnssonar:

„Bókin var stofnuð á fyrsta afgreiðsludegi sparisjóðsins 1. okt. 1913, með 5 krónu inleggi sem Sigurður Bachmann fékk að gjöf frá föðursystur sinni Málfríði – c.a. 2 lambsverð.  Sigurður Bachmann afhendi sparisjóðsstjóra, Friðjóni Sveinbjörnssyni, bókina sem gjöf til sparisjóðsins 30. júlí 1985.“

Það var Steinunn Ásta Guðmundsdóttir sem afhenti gögnin fyrir hönd Arion banka, en svo skemmtilega vildi til að hún á 36 ára starfsafmæli í dag.

 

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed