Um helgina kom David Gislason í heimsókn í Safnahús, m.a. í fylgd Almars Grímssonar stjórnarformanns Þjóðræknisfélags Íslands. Hópurinn skoðaði sýninguna Börn í 100 ár og fékk svo fylgd forstöðumanns Safnahúss um elsta hluta Borgarness þar sem m.a. var skoðaður minningarsteinn um Vestur-íslensk hjón sem fluttu frá Borgarfirði vestur um haf árið 1900.
David er Íslendingum að góðu kunnur fyrir ýmis störf sín í þágu íslenska samfélagsins í Kanada. Hann hefur einnig gegnt forystuhlutverki í samfélaginu og ekki síst meðal bænda í Arborg í Manitoba þar sem hann rekur bú. Erindi Davids og Almars í Borgarnes var ekki síst að vitja minningarsteins um Vestur-íslensku hjónin Ástu Jóhannesdóttur og Helga Jónsson sem fóru úr Borgarfirði til Vesturheims árið 1900. Þau lögðu upp frá Englendingavík í Borgarnesi þar sem steinninn stendur.
David Gislason hefur einlægan áhuga á íslenskri menningu og talar íslensku reiprennandi þrátt fyrir að vera fæddur og uppalinn í Kanada. Hann hefur gert talsvert af því að þýða íslensk ljóð yfir á ensku og hefur gefið út ljóðabókina The fifth dimension þar sem bæði er að finna þýðingar og frumsamin ljóð. Hann er heiðursfélagið Þjóðræknisfélagsins og bókin hans er gefin út af útgáfufélaginu KIND sem stofnað var af íslenskudeild háskólans í Manitoba.
Talsvert er um að Kanadamenn af íslenskum uppruna leggi leið sína í Borgarnes til að skoða minningarsteininn um Helga og Ástu. Fyrir þá er hann táknrænn fyrir þá tregastund þegar fólk kvaddi gamla landið, flest fyrir fullt og allt, til að nema nýtt land í Vesturheimi.
Ljósmyndin með fréttinni er tekin við minningarsteininn í Englendingavík. Frá vinstri: David Gislason, Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss og Almar Grímsson formaður Þjóðræknisfélagsins.
Comments are closed