Ein myndanna sem enski aðalsmaðurinn W. G. Collingwood  málaði á Íslandi sumarið 1897 hefur verið afhent Safnahúsi Borgarfjarðar til eignar og varðveislu. Um er að ræða mynd sem Collingwood málaði á Gilsbakka í Hvítársíðu þegar hann dvaldi þar á ferðum sínum um íslenska sögustaði.  Alls málaði Collingwood þrjár myndir á Gilsbakka þetta sumar, eina af bænum sjálfum og aðra af gilinu við bæinn auk myndarinnar sem hér um ræðir, sem er af litlu stúlkubarni. Fyrirmyndin var Guðrún Magnúsdóttir fædd 1896, dóttir þáverandi húsaráðenda á  Gilsbakka, séra Magnúsar Andréssonar og Sigríðar Pétursdóttur.

Það var dóttir Guðrúnar, Sigríður Sigurðardóttir, sem afhenti myndina en á bak við gjöfina standa ennfremur systir hennar og mágkona, Guðrún Sigurðardóttir og Ragnheiður Kristófersdóttir. Í för með Sigríði var fjölskylda hennar, sonur, tengdadóttir og tvö barnabörn.

 

Þess má geta að í Safnahúsi er nú heimildasýning um séra Magnús Andrésson þar sem varpað er ljósi á heimilið á Gilsbakka í tíð þess merka manns. Um einstakt menningarheimili var að ræða og nokkurs konar háskóla í sveit, þar sem m.a. Guðmundur Böðvarsson skáld á Kirkjubóli hlaut menntun sína um fimm ára skeið.

Guðrún Magnúsdóttir var fædd og uppalin á Gilsbakka og var þar húsfreyja um 20 ára skeið. Hún lést um aldur fram árið 1943. Eiginmaður hennar og bóndi á Gilsbakka var Sigurður Snorrason frá Laxfossi og Húsafelli. Þau áttu þrjú börn: Magnús síðar bónda á Gilsbakka, Sigríði og Guðrúnu.

 

Myndin af Guðrúnu birtist á sínum tíma í bók Einars Fals Ingólfssonar Sögustaðir þar sem sjá má ljósmyndir sem Einar Falur tók á sömu stöðum og enski aðalsmaðurinn Collingwood málaði myndir sínar á Íslandi á sumarið 1897. Bókin er mjög vönduð og þar er merkilegt að sjá hvernig tveir listamenn kallast á með aldar millibili.

 

Í tilefni þessarar góðu og merku gjafar verður hún höfð til sýnis í anddyri bókasafns í Safnahúsi til 27. ágúst n.k., sjá nánar um opnunartíma hér á síðunni. 

 

Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður, Sigríður Sigurðardóttir (heldur á mynd Collingwoods) og Magnús Karlsson sonur Sigríðar. Myndataka: Vilborg Einarsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed