Fyrir nokkrum dögum komu nokkrir góðir menn færandi hendi til Safnahúss. Þeir voru með bát meðferðis sem færður var safninu að gjöf. Forsaga málsins er sú að fyrir nokkrum vikum kom Willy Petersen að máli við Safnahús og sagði að hann og nokkrir aðrir hefðu hug á að bjarga báti til byggða, en hann væri staðsettur uppi á Arnarvatnsheiði og hefði verið þar í rúmlega 80 ár.

Ekki þótti endilega líklegt að báturinn væri í standi til að þola flutningana, en talið var rétt að láta á slíkt reyna.  Það er skemmst frá að segja að báturinn reyndist í furðu góðu ásandi eftir allan þennan tíma og þoldi flutningana vel. 

 

Báturinn var sem sagt staðsettur á Arnarvatnsheiðinni, nánar tiltekið við neðra Grunnvatnið. Hann var smíðaður af Finni Gíslasyni smið í Borgarnesi (frá Suðurríki), líklega árið 1927 og var eign Sigurðar Guðmundssonar, bónda á Kolsstöðum.  Á honum sótti Kolsstaðafólkið lífsbjörgina, þ.e. silung í vötnin á heiðinni. Við að ná bátnum niður af heiðinni var honum fleytt á plastbáti (þeir notuðu uppblásin dekk til að verja hann í flutningunum) töluverðan hluta leiðarinnar, en svo var hann borinn þangað til náðist að koma honum á kerru og þar var hann lagður á rúmdýnu til að sem mýkst væri undir.  Dýnan sést á myndinni.

 

Myndin er tekin við Safnahús 5. júlí 2010 er báturinn þá kominn til Borgarness. Á henni eru (frá vinstri): Willy Petersen, Sigmar K.S. Sigurbjörnsson og Valur Haraldsson, en auk þeirra flutti Ásgeir Sigurðsson frá Kolsstöðum bátinn til byggða um helgina áður. 

 

Þessi merki gripur og vandaða smíð er verðugur fulltrúi fyrir mikilvægan þátt í byggðasögu Borgfirðinga, þ.e. að sækja björg í bú úr veiðivötnum í héraðinu. 

 

Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir.

 

 

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed