Sveinbjörn Beinteinsson, skáldbóndi og Allsherjargoði fæddist þennan dag árið 1924, yngstur átta barna hjónanna Beinteins Einarssonar og Helgu Pétursdóttur konu hans sem fyrst bjuggu í Grafardal en síðar á Draghálsi í Svínadal. Einsog kunnungt er voru systkinin öll skáldmælt og út komu ljóðabækur eftir sex þeirra og öll áttu þau efni í bókinni Raddir Dalsins sem út kom árið 1993. Sveinbjörn var bóndi á Draghálsi frá 1944 en bjó síðustu æviárin í Hlíðarbæ á Hvalfjarðarströnd. Hann var um tíma kvæntur Svanfríði Hagvaag og eignaðist með henni synina Georg Pétur og Einar. Hann stofnaði ásamt fleirum Ásatrúarsöfnuðinn 1972 og var fyrsti Allsherjargoði hans. Eftir Sveinbjörn liggja fjölmargar bækur og ýmis ritstörf önnur. Ævisögu sína skrifaði hann árið 1992 í félagi við Berglindi Gunnarsdóttur og bar bókin heitið Allsherjargoðinn.
Sveinbjörn var mikill áhugamaður um rímfræði og forgöngumaður á því sviði að varðveita gömlu rímnahefðirnar. Hann tróð víða upp á samkomum með rímnakveðskap og honum bregður meira að segja fyrir á tímamótaverkinu Rokk í Reykjavík. Þá voru gefnar út hljómplötur og snældur með flutningi hans. Auk frumsamdra ljóðabóka kom út frá hans hendi Bragfræði og háttatal og Gátur í þremur heftum og jafnframt hafði hann umsjón með nokkrum ritum, meðal annars Rímnavöku 1959, Rímnasafni Sigurðar Breiðfjörð í sex bindum og Fúsakveri sem hafði að geyma kveðskap Leiru-Lækjarfúsa. Þá var Sveinbjörn einn þriggja sem höfðu umsjón með Borgfirðingaljóðum. Sveinbjörn var mikill áhugamaður um skógrækt og sat um skeið í stjórn Skógræktarfélags Borgarfjarðar. Í hans síðustu ljóðabók sem nefnist Bragskógar og kom út árið 1989 má finna ljóð sem tengjast landi og gróðri, skógrækt og landvernd. Tvö fyrstu erindi kvæðisins Skógarhugur hljóma á þessa leið en þar hvetur skáldið menn til dáða í þessum efnum.
Viður er tekinn að vaxa,
vörnum í sókn er snúið.
Gagnprýði grænna faxa
gróðurveldið er búið.
Færist þá fegri litur
fjörs og máttar á landið.
Ljúfur er laufaþytur,
ljóðið hans er gáskablandið.
Verkliðum vilji nægir,
vaxtarins ármenn glaðir,
sumir seigir og hægir,
sumir örir og hraðir.
Allir að einu starfi
erfiði sínu beina.
Djarft vill hinn dáðumþarfi
dug sinn og hæfni reyna.
Árið 1984 kom út kvæðabók Sveinbjarnar, Heiðin, hjá Hörpuútgáfunni á Akranesi sem gaf út margar bækur systkinanna frá Grafardal. Í þessari bók er að finna skemmtilegt kvæði sem nefnist Sérviskan og ort var árið 1947 þegar skáldið var 23 ára gamalt.
Að sérviskan hefði á sál minni völd
var sagt og það skoðað sem hnjóð,
því ligg ég hér svefnvana síðan í kvöld
og set mína hugsun í ljóð.
Þótt heimsmönnum virðist hún vandræðadyggð
sú viska sem spyr ekki um ráð,
þá batt ég þó við hana vináttutryggð
sem varla mun rofin í bráð.
En tannfé mitt var hún og traust eins og fjöll
og trúlegast þætti mér að
hún fylgdi mér þangað til æfin er öll
og ef til vill framar en það.
En reynt var af megni að má hana brott
og mér var það hollara tjáð
að fylgjast með siðum og finnast það gott
sem fjölviskan kallaði ráð.
En allt þetta stóðst hún með öruggum dug
og áræðin varð hún og djörf;
svo nú er hún roskin og ráðin í hug
og reynist mér vinur í þörf.
Sveinbjörn Beinteinsson lést á aðfangadag jóla árið 1993.
Comments are closed