Þann 5. apríl  n.k. kl. 17.00  verður opnuð ný sýning í Safnahúsi, þar sem fuglar úr náttúru Íslands eru sýndir í mögnuðu umhverfi. Þemað er farflugið; hin miklu og óskiljanlegu afrek fuglanna sem hafa heiminn undir í ferðum sínum en rata þó alltaf til baka.  Um leið er minnt á að á Íslandi eru mikilvæg búsvæði fugla sem ber að vernda til hagsbóta allra jarðarbúa, enda er Ísland aðili að alþjóðlegum náttúruverndarsáttmálum. Sýningarhönnuður er Snorri Freyr Hilmarsson, sá sami og hannaði sýninguna Börn í 100 ár.

Í sýningunni er unnið með merkan safnkost Náttúrugripasafns Borgarfjarðar. Þar má sjá ýmsa sjaldgæfa gripi s.s. snæuglu, fálka og albínóa, auk algengari fugla og sjaldséðra flækinga. Flugleiðir fugla eru teiknaðar upp á stór handmáluð veraldarkort og hægt er að sjá hreiður, egg og æti. Umgjörð sýningarinnar er úr speglum og gleri, sem eykur upplifunina og kallar fram hugsun um töfra víðáttunnar. Blár grunnlitur táknar himin og haf sem eru svo mikilvæg í lífríki fuglanna. Flestir fuglanna eru stoppaðir upp af Kristjáni Geirmundssyni og Jóni Guðmundssyni sem voru mikilhæfir og merkir handverksmenn á sínu sviði.

Snorri Freyr Hilmarsson hefur vakið athygli fyrir frumlega og listræna hönnun þar sem sjónræn áhrif eru í fyrirrúmi. Myndskreyting er í höndum hans og Steingríms Þorvaldssonar. Ljósmyndir tók Sigurjón Einarsson og Heiður Hörn Hjartardóttir annaðist grafíska vinnslu. Yfirsmiður er Hannes Heiðarsson og um endurbætur á fuglasafni sá Bjarni Hlynur Guðjónsson.

 

Sýningin er sett upp í faglegri samvinnu við Náttúrustofu Vesturlands og Náttúrufræðistofnun Íslands. Hún verður önnur tveggja fastasýninga Safnahúss og verður ásamt sýningunni Börn í 100 ár opin alla daga í sumar (júní, júlí og ágúst) frá 13-17 og á öðrum tímum eftir samkomulagi. Auk þess verður sýningin opin báða helgardagana eftir opnun frá 13-17.

 

Sigfús Sumarliðason

Sýningin er helguð minningu Sigfúsar Sumarliðasonar (1932-2001) fyrrverandi sparisjóðsstjóra í Borgarnesi. Sigfús var lengi formaður í stjórn Náttúrugripasafnsins og vann því af miklum heilindum og áhuga. Hann var ennfremur formaður stjórnar Byggðasafns Borgarfjarðar í þrettán ár og þá jafnframt Safnahússtjórnar.

 

 

Sýningin Ævintýri fuglanna er m.a. styrkt af eftirtöldum aðilum: Borgarbyggð, Safnaráð Íslands, Menningarráð Vesturlands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrustofa Vesturlands, Landsbanki Íslands, Límtré Vírnet, Íslenska Gámafélagið ehf.

 

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed