Laugardaginn 2. nóvember kl. 13.00 verður þess minnst í Safnahúsi að 110 ár eru liðin frá fæðingu Páls Jónssonar bókavarðar, sem eftirlét bókasafn sitt Héraðsbókasafni Borgarfjarðar á sínum tíma. Flutt verður erindi um Pál og söfnun hans og stillt upp sjaldfengnum eintökum bóka í safnrýminu í tilefni afmælisársins. Verður sú sýning uppi í tvær vikur. Opið verður til kl. 16.00 þennan laugardag en eftir það á opnunartíma Héraðsbókasafnsins, virka daga 13.00 til 18.00.

Páll var fæddur árið 1909 að Lundum í Stafholtstungum en ólst upp lengst af í Örnólfsdal í Þverárhlíð. Átján ára fluttist hann til Reykjavíkur þar sem hann lagði stund á verslunarstörf og blaðamennsku þangað til hann hóf störf hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur árið 1953 sem bókavörður. Því starfi sinnti hann þangað til hann lét af störfum árið 1980 fyrir aldurssakir. Auk áhuga síns á bókum og bókasöfnun hafði Páll mikinn áhuga á ljósmyndun, en myndir hans hafa birst víða í bókum og tímaritum. Tengt ljósmyndaáhuga Páls, var áhugi hans á ferðalögum og útivist. Páll var virkur félagsmaður í Ferðafélagi Íslands og sat í stjórn þess frá 1947 til 1978 er hann baðst undan endurkosningu.
Páll var ritstjóri Árbókar Ferðafélagsins frá 1968- 1982 er hann lét af starfi að eigin ósk. Fyrir ritstjórnartíð sína kom Páll að Árbókinni og lagði meðal annars fram myndefni í bókina. Árið 1980 var Páll gerður að heiðursfélaga Ferðafélags Íslands.

Í Pálssafni eru á að giska um 5-7000 bindi frá ýmsum tímum, margar afar fágætar bækur. Elst þeirra er eitt af ritum Marteins Lúters, prentað í Wittenberg árið 1521. Í safninu er meðal annars Biblia laicorum eða Leikmannabiblía eftir Johann Auman, sem prentuð var 1599 í þýðingu Guðbrands biskups.

Páll lagði á það mikla áherslu að safna íslenskum bókum frá fyrri öldum og varð vel ágengt. Til að mynda eru 29 íslenskar bækur frá 17.öld í safni hans, þar á meðal Þorláksbiblía gefin út á Hólum 1644. Áritaðar bækur eru þó nokkrar í Pálssafni: elst er erlend latínubók úr eigu Brynjólfs biskups Sveinssonar. Af öðrum árituðum bókum frá fyrri tíð má nefna bækur Skúla Magnússonar Landfógeta, sr. Þorsteins Helgassonar í Reykholti og ljóðabækur skáldanna Gríms Thomsens, Þorsteins Erlingssonar og Einars Benediktssonar. Áritaðar bækur frá seinni tíð eru nær óteljandi.

Þess skal einnig getið að margar af sínum bókum batt Páll inn sjálfur, enda þótti hann meðal bestu bókbindara landsins. Ekki sótti hann þó iðnnám í þeirri grein heldur lærði af þýskum listbókbindara er hér dvaldist um nokkurra ára skeið eftir stríðslok.

Í stjórn Pálssafns sitja eftirtalin: Sigrún Guðmundsdóttir, Sverrir Kristinsson og Guðrún Jónsdóttir.

 

Ljósmynd: Úr Pálssafni (Guðrún Jónsdóttir).

 

Categories:

Tags:

Comments are closed