Í Safnahúsi er bók mánaðarins á borði í anddyri bókasafns og þar geta gestir sest niður og blaðað í vönduðum handbókum. Bókin sem nú liggur frammi er bók Einars Fals Ingólfssonar Sögustaðir með undirtitlinum Í fótspor W.G.Collingwoods. Þar má sjá ljósmyndir sem Einar Falur tók á sömu stöðum og enski aðalsmaðurinn Collingwood málaði myndir sínar á Íslandi á sumarið 1897. Bókin er mjög vönduð og þar er merkilegt að sjá hvernig tveir listamenn kallast á með aldarmillibili.
Í gær kom mikill heiðursgestur í Safnahús, Dr. Emily Lethbridge. Hún er í pílagrímsferð um Ísland á gömlum Land Rover og hefur undirbúningur ferðarinnar staðið yfir í langan tíma. Hluti þess var að dvelja á bóndabæ á Íslandi árið 2008 til að læra málið, en einnig hefur Emily kynnt sér tæknihlið bílsins vel til að geta sjálf annast viðhald og viðgerðir ef bilun kæmi upp. Tilgangur ferðarinnar er að skoða sögustaði Íslendingasagna og fer hún þar í fótspor Collingwoods sem fór um landið í sömu erindagjörðum árið 1897, en einnig hefur Dr. Emily kynnt sér ferðir annarra sem fóru um landið á 19. öldinni s.s. William Morris, og ber frásagnir þeirra við upplifun sína í sama tilgangi á 21. öldinni.