Horfðu á sumarsól um dalinn,

sjáðu glitra vetrarhjarn,

blómum klæðist kalinn balinn;

krjúptu í lotning, jarðarbarn.

Heilladísir haldi vörðinn,

hretin lægi, þorni tár.

Blessi drottinn Borgarfjörðinn

og börnin hans í þúsund ár.

 

Þannig hljómar lokaerindið í ljóðinu Borgarfjörður eftir  Guðmund Björnsson sýslumann en í dag eru liðin 140 ár frá fæðingu hans.  Ljóðið er að finna í einu ljóðabók Guðmundar er nefnist Ljóðmæli og kom út árið 1925.

Guðmundur Björnsson fæddist og ólst upp á bænum Svarfhóli í Stafholtstungum sonur Björns Ásmundssonar og Þuríðar Jónsdóttur konu hans.

Hann varð stúdent árið 1896 og lauk lögfræðiprófi frá Kaupmannarhafnarháskóla árið 1902.  Í þrjú ár þar á eftir var hann bóndi í Húnavatnssýslu og sýslumaður þar og í Eyjafirði um tíma en tók árið 1905 við sem sýslumaður Barðstrendinga með aðsetur á Patreksfirði.  Árið 1918 flutti hann aftur heim í Borgarfjörð ásamt fjölskyldu sinni og tók við embætti sýslumanns í Borgarnesi. Því starfi gegndi hann allt til ársins 1937 er hann flutti búferlum til Reykjavíkur.  Guðmundur sinnti einnig póstafgreiðslu samfara sýslumannsstarfinu. Hann var mikill áhugamaður um ýmis þjóðþrifamál, m.a vann hann mikið að undirbúningi raforku í sínu héraði. 

 

Guðmundur giftist Þóru Leópoldínu Júlíusdóttur árið 1902 en saman eignuðust þau átta börn en einn son átti Guðmundur að auki. 

Í áðurnefndri ljóðabók yrkir Guðmundur svo til Þóru konu sinnar:

 

Án þín trúin  væri veik,

vonin hefði sofið.

Þú hefur gert mjer lífið leik,

lán úr slysum ofið.

 

Ljóðabók Guðmundar er býsna fjölbreytt að efni, þar má meðal annars finna fjölmörg erfiljóð um vini og ættingja hans. 

Það fer vel á því, á þessum annars kalda degi í dag, að birta hér að lokum kvæði um sólina, það ber heitið Sól yfir sól:

 

Yfir sævarins rót,

yfir urðir og grjót,

yfir kletta og hraunöldufans,

yfir jökla og gjár,

yfir heiðar og flár,

stígur sólgeislinn svifléttan dans.

 

Yfir lífsstrit og deyð,

yfir örbrigð og neyð,

yfir sorginni, er gleðina fól,

yfir þrekleysi í barm,

yfir þreytu í arm,

ljómar gullfögur vonanna sól.

 

Yfir hjartnanna ís,

yfir lífsgleði, er frýs,

yfir von, sem í hörkunni kól,

ýfir sundrung og sár,

yfir svíðandi tár

leiftrar kærleikans guðlega sól.

 

Guðmundur Björnsson lést tæplega áttræður að aldri árið 1953. 

 

Mynd: Guðmundur Björnsson, ljósmyndari Árni Böðvarsson, eigandi myndar: Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed