Mikið hefur undanfarið verið spurt um nefndarálit um málefni Safnahúss, sem lagt var fram í byggðaráði 1. febrúar s.l.  Heiti álitisins er „Þróun safnastarfs í Borgarbyggð“ og undirtitill er aukin starfsemi í Hjálmakletti (hús Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi. Formaður nefndarinnar var Björn Bjarki Þorsteinsson og með honum störfuðu Guðveig Eyglóardóttir og Guðný Dóra Gestsdóttir.  Ráðgjafi með nefndinni var Sigurjón Þórðarson frá Nolta.

Undanfari málsins var eftirfarandi  bókun á fundi byggðaráðs Borgarbyggðar 24. ágúst 2017: „ Byggðarráð ræddi stöðu safnamála í Borgarbyggð í víðu samhengi. Rætt um að fá óháðan fagaðila í safnamálum til að vinna að framtíðarskipan safnamála í Borgarbyggð. Sveitarstjóra falið að vinna áfram að málinu.“

Í framhaldi af þessu sendi starfsfólk Safnahúss frá sér ályktun þar sem það lýsti yfir áhyggjum af safnastarfinu og á fundi með byggðaráði 15. febrúar s.l. lagði það fram eftir farandi bókun að framkomnu áliti nefndarinnar:

„Nú liggur fyrir nefndarálit um að borgfirsku söfnunum verði sundrað og Safnahús lagt niður í núverandi mynd.  Í ljósi þessa minnum við á að lifandi miðlun liðinnar sögu er dýrmætur þáttur í búsetugæðum.  Náin sambúð borgfirsku safnanna fimm hefur skapað þróttmikið menningarstarf sem vakið hefur athygli og verið Borgarbyggð til sóma. Safnahúsið hefur þar gegnt megin hlutverki og staðsetning þess í Borgarnesi hefur vegið þungt, því þangað eiga allir leið. Hafa ber í huga að húsið þjónar stóru svæði, allt frá Haffjarðará að Hvalfirði. Það er einlæg ósk okkar að kappkostað verði að valda ekki skaða á stofnun sem gegnir svo mikilvægu hlutverki , heldur efla hana og hvetja til enn stærri afreka.“

Ennfremur má geta þess að starfsfólk Menntaskóla Borgarfjarðar lagði fram ályktun þessu tengt á sama fundi og stjórn Nemendafélags Menntaskóla Borgarfjarðar sendi einnig  frá sér ályktun. Samband íslenskra framhaldsskólanema sendi einnig inn stuðningsályktun við nemendur MB á fund byggðaráðs 15. mars s.l. og tvær lesendagreinar hafa birst um málefnið í héraðsfréttablaðinu Skessuhorni.  Annars vegar grein eftir Þorstein Þorsteinsson lífefnafræðing og Eddu Björnsdóttur kennara og hins vegar grein eftir Guðmund Guðmarsson fyrrv. forstöðumann Safnahúss.

Sveitarstjórn hélt opinn íbúafund um safnamálin í Hjálmakletti í Borgarnesi miðvikudaginn 11. apríl. Meðal frummælenda var Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss og má sjá framsöguerindi hennar með því að smella hér.

Er þessum upplýsingum hér með komið á framfæri (uppfærð frétt).

 

Categories:

Tags:

Comments are closed