Hundrað ár frá fyrsta bílnum

Ný örsýning hefur verið sett upp í Safnahúsi með fróðleik og ljósmyndum úr lífi Magnúsar Jónassonar, sem eignaðist fyrsta bílinn sem kom í Borgarnes fyrir hundrað árum. Magnús var fæddur árið 1894, á Galtarhöfða í Norðurárdal. Hann fór ungur að heiman til Reykjavíkur og lærði þar á bíl frostaveturinn mikla 1917-1918. Hann lauk prófinu í febrúar 1918 og eignaðist sama ár fyrsta borgfirska ökuskírteinið, þá 24 ára gamall. Einnig keypti hann gamlan Ford sem var skráður MB 1. Magnús rak um skeið bílastöð í Borgarnesi og byggði þekkt hús að Borgarbraut 7 í Borgarnesi, sem kallað er 1919.

Sýningin um Magnús er á veggspjöldum við stigauppgönguna í Safnahúsi. Hún er eitt þriggja verkefna hússins vegna hundrað ára afmælisins, hin tvö eru grein í væntanlegri Borgfirðingabók og fróðleikur og myndir á heimasíðu sem sjá má með því að smella hér.

Það er Heiður Hörn Hjartardóttir sem hefur hannað veggspjöldin um Magnús, en textagerð annaðist Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss í samvinnu við fjölskyldu Magnúsar sem einnig útvegaði myndir.

Safnahús notar margar leiðir til að koma héraðsfróðleik á framfæri og er þetta ein þeirra. Sýningin tekur við af minningarvegg um Dr. Selmu Jónsdóttur, en áður var minningu Jakobs Jónssonar frá Varmalæk gerð skil á sama stað.  Hefur þessari aðferð hússins við að minnast liðinna manna og atburða verið vel tekið.

 

Guðrún Jónsdóttir
gudrunj@borgarbyggd.is

Categories:

Tags:

Comments are closed