Næstkomandi laugardag, 10. nóvember, verður aukaopnun í Safnahúsi kl. 13.00 – 15.00, þar sem Helgi Bjarnason sýningarstjóri veitir leiðsögn um sýninguna um Hvítárbrúna. Sýningin var opnuð að viðstöddu fjölmenni á 90 ára afmælisdegi brúarinnar 1. nóvember síðastliðinn. Þar flutti Helgi ávarp auk Baldurs Þórs Þorvaldssonar sem talaði fyrir hönd Vegagerðarinnar, sem er samstarfsaðili Safnahúss um verkefnið. Hvítárbrúin á sér merka byggingarsögu og gegndi veigamiklu hlutverki í samgöngum á Íslandi í rúma hálfa öld.  Hún þykir einnig sérstaklega fallegt mannvirki og  prýðir nú héraðið sem innansveitarleið eftir að Borgarfjarðarbrúin var tekin í notkun um 1980.

Verkefnið hefur verið í undirbúningi frá því fyrir um tveimur árum og var það að frumkvæði Helga sem samið hefur allan texta og valið ljósmyndir. Verkefni Safnahúss taka ævinlega sterkt mið af því menningarsamfélagi sem húsið starfar í, en starfssvæðið nær allt frá Hvalfirði og vestur að Haffjarðará.  Oft er unnið með einstaklingum af svæðinu um efni sem þeir þekkja vel til og er framlag Helga gott dæmi um slíka samvinnu. 

Heiður Hörn Hjartardóttir er hönnuður sýningarinnar sem er hluti af dagskrá Menningararfsárs Evrópu í samvinnu við Minjastofnun Íslands. Þess má geta að Borgarbyggð átti í ár í gegnum starfsemi Safnahúss einnig þátt í landsdagskrá Fullveldisafmælis Íslands og tekur nú sem sagt þátt í þessu samstarfi á Evrópugrundvelli.  Af þessu tilefni var Magnús A. Sigurðsson Minjavörður Vesturlands viðstaddur opnun sýningarinnar.

 

Kaupfélag Borgfirðinga veitir verkefninu góðan styrk sem ber vott um ræktarsemi félagsins við hið borgfirska samfélag fyrr og síðar.

Verkefnið er helgað minningu Þorkels Fjeldsted, fyrrum bónda í Ferjukoti sem lést fyrir aldur fram árið 2014.  Þorkell lét sér alltaf mjög annt um að varðveita sögulegan fróðleik og miðla honum í lifandi frásögn. Hann bjó í návígi við brúna alla sína ævi og gegndi veigamiklu hlutverki í hátíðahöldum vegna 80 ára afmælis brúarinnar í ágúst árið 2008. Þorkell sem gjarnan var kallaðir Keli  – átti sér marga vini og mörgum þótti vænt um hann og þykir mannlífið snöggtum fátækara án hans.  Var fjölskylda hans viðstödd opnunina.

Þess má geta að á opnunardaginn bað Geirabakarí fyrir kveðju til samkomunnar og lagði til svokallaða „Kelabita” í minningu Þorkels.

Öllum þeim sem hafa góðfúslega aðstoðað með margvíslegum hætti við undirbúning þessa verkefnis færir starfsfólk Safnahúss innilegar þakkir.

Ljósmyndir með frétt:  Guðrún Jónsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed