Ný sýning hefur göngu sína í Hallsteinssal laugardaginn 26. júní, en það er fyrsti sýningardagur Viktors Péturs Hannessonar á verkum sem hann vinnur með borgfirskum jurtum og ber sýningin heitið Borgarfjarðarblómi. Opið verður 13 til 17 þennan fyrsta sýningardag.
Viktor Pétur hefur unnið að myndlist sinni með hjálp íslenskrar flóru undanfarin 4 ár. Hann ferðast um á ferðavinnustofu sinni, Afleggjaranum, og fylgist grannt með síbreytilegu litaframboði jurtaríkisins, allt frá brons-gulum njólarótum að vori yfir í dimmblá krækiberin að hausti. Oftar en ekki hefur hann átt viðkomu í Borgarfirði og nágrenni á ferðum sínum, og eru verkin á sýningunni unnin í þessum heimsóknum.
Viktor Pétur útskrifaðist af myndlistarbraut Listaháskóla Íslands árið 2012, og lýkur námi sínu við Listfræðideild Háskóla Íslands nú í haust.
Sýningin stendur til og með 29. júlí og verður opin kl. 13:00 – 18:00 alla virka daga og 13:00 – 17:00 um helgar. Ekki er um formlega opnun að ræða vegna aðstæðna en stefnt er að því að auglýsa viðveru listamannsins síðar.
Hallsteinssalur er kenndur við Hallstein Sveinsson sem var einn velgjörðarmanna Borgarness, en þangað gaf hann listasafn sitt á sínum tíma. Hann var mikill listvinur og rammaði inn fyrir marga kunnustu listamenn Íslands á 20. öld. Minning hans er í hávegum höfð í Safnahúsi og þar er unnið í samræmi við hugsjónir hans um mikilvægi listar og listsköpunar.
Comments are closed