Í gær fengu tvær stofnanir sveitarfélagsins, Safnahúsið og Tónlistarskólinn, viðurkenningu Samfélagssjóðs verkfræðistofunnar EFLU fyrir samstarfsverkefni stofnananna um listræna sköpun ungs fólks. Um er að ræða þróunarverkefni þar sem nemendur semja lög við ljóð borgfirskra skálda og eru verkin síðan flutt á tónleikum í Safnahúsi á sumardaginn fyrsta.
Styrkur EFLU er veittur vegna ársins 2016, en þá munu nemendur vinna með ljóð Snorra Hjartarssonar sem fæddur var á Hvanneyri og bjó einnig á Ytri-Skeljabrekku og í Arnarholti.
Samfélagssjóður EFLU var stofnaður árið 2013 í tilefni af 40 ára afmæli fyrirtækisins og er markmið hans er að styrkja uppbyggjandi og jákvæð verkefni í samfélaginu. Hefur úthlutunarnefnd gildi EFLU, hugrekki, samvinna og traust sem leiðarvísi við störf sín. Alls fengu níu aðilar viðurkenningu frá sjóðnum í gær.
Viðurkenningin er mikilvæg hvatning fyrir samstarf Safnahúss og Tónlistarskólans. Það hefur fengið afar jákvæðar undirtektir og þess má geta að á síðustu tónleikum voru hátt á annan tug verka eftir nemendur skólans frumflutt. Höfðu þeir unnið að því á vorönn að semja undir handleiðslu kennara sinna. Var flutningur með ýmsum hætti og m.a. kom kór eldri borgara fram í einu laginu sem var eftir sjö ára tónskáld.
Ljósmynd: Theodóra Þorsteinsdóttir skólastjóri Tónlistarskólans og Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss eftir úthlutunina úr sjóðnum sem fram fór í höfuðstöðvum EFLU við Ártúnshöfða í Reykjavík.
Ljósmyndun: Helga Jóna Óðinsdóttir.
Comments are closed