SIG_8486Sýningin Refir og menn hefur verið afar vel sótt síðan hún var opnuð 21. apríl s.l. Þar má sjá ljósmyndir Sigurjóns Einarssonar af refaveiðimönnum í Borgarfirði og er sýningin samstarfsverkefni sem var í undirbúningi allt frá byrjun septembermánaðar 2016. Tilgangur þess var að varpa ljósi á störf og umhverfi refaveiðimanna, en þeirra atvinnugrein er snar þáttur í mannlífi og gegnir mikilvægu hlutverki fyrir landbúnað á svæðinu. Fylgdi Sigurjón refaveiðimönnum eftir við vetrarveiði veturinn 2015-2016. Er fólk hvatt til að koma í Safnahús fram að 11. nóvember en þá verður sýningin tekin niður til að rýma fyrir næsta verkefni, ljósmyndasýningu Jóns Rúnars Hilmarssonar sem verður opnuð 19. nóvember kl. 13.00.  Viðfangsefni Jóns er ljós og náttúra Vesturlands og stendur sú sýning til áramóta. Starfsáætlun safnanna fyrir árið 2017 liggur þegar fyrir og verður það ár helgað 150 ára afmæli Borgarness sem markast af því að staðurinn fékk verslunarleyfi árið 1867.

Categories:

Tags:

Comments are closed