Stærsta verkefni ársins 2017 er nú að renna sitt skeið en það var sýningin Tíminn gegnum linsuna sem tileinkuð var 150 ára afmæli Borgarness. Sú sýning var opnuð 22. mars s.l. og verður síðasti opnunardagur 28. desember.
Við taka ýmis ný verkefni. Laugardaginn 6. janúar kl. 13.00 verður opnuð myndlistarsýning sem stendur til 2. mars. Þar sýnir myndlistarkonan Guðrún Helga Andrésdóttir undir heitinu „Staðir allt um kring.“
Föstudaginn 12. janúar tekur Safnahús þátt í „Dimma deginum“ í Borgarnesi. Safnahús mun bjóða upp dagskrárlið kl. 12.00; hádegisfyrirlestur í Hallsteinssal sem nefnist: „Straumlaust á Mýrum“ – Jóhanna Skúladóttir flytur þar stutt erindi um lífið í ljósleysinu. Á boðstólum verður flatbrauð með hangikjöti og sýra (mysa) með.
Fimmtudaginn 18. janúar kl. 20.00 verður fyrirlestur Guðrúnar Bjarnadóttur á dagskrá, en þar fjallar hún um jurtalitun.
Að lokum má nefna að 25. janúar kl. 10.30 verður myndamorgunn á vegum Héraðsskjalasafnsins, sem kallar þar eftir fólki til að greina ljósmyndir frá ýmsum stöðum og tímum. Margt fleira verður á döfinni í Safnahúsi á næstu mánuðum og verður viðburðaskrá ársins 2018 sett hér inn á síðuna fljótlega eftir áramótin.
Ljósmynd með frétt (GJ): frá sýningunni Tíminn gegnum linsuna, sem hönnuð var af Heiði Hörn Hjartardóttur og samin af Heiðari Lind Hanssyni.
Comments are closed