Fimmtudaginn 16. nóvember verður Degi íslenskrar tungu fagnað í Safnahúsi með fróðleik úr bókunum sem út komu í vor um sögu Borgarness.

Um leið minnumst við með vinarhug og söknuði góðs vinnufélaga okkar Egils Ólafssonar sem lést langt fyrir aldur fram þegar hann var vel á veg kominn með ritun verksins. Frændi hans Heiðar Lind Hansson kom þá til liðs við sveitarfélagið og lauk skrifunum með sóma.

Heiðar flytur erindi  í Safnahúsi kl. 20.00 annað kvöld þar sem hann fjallar um tíu þræði úr sögunni. Erindið tekur um 45 mín. og á eftir er kaffispjall. Dagskrá lýkur um 21. 15.

Þess má geta að Heiðar á ríkan hlut í sýningunni Tíminn gegnum linsuna sem nú er í Safnahúsi og stendur til áramóta.  Þar valdi hann ljósmyndirnar og setti við þær skýringartexta.  Myndirnar á sýningunni eru eftir fjóra ljósmyndara og sýna mannlíf og umhverfi í Borgarnesi á 20. öld. Ljósmyndararnir eru þessir: Friðrik Þorvaldsson, Einar Ingimundarson, Júlíus Axelsson og Theodór Kr. Þórðarson.

Sýningin hefur hlotið góðar umsagnir og hefur verið vel sótt.

Ljósmynd (Guðrún Jónsdóttir): Heiðar Lind Hansson.

Categories:

Tags:

Comments are closed