Í Safnahúsi er lögð áhersla á fjölbreytta menningarfræðslu og gott aðgengi. Nánara fyrirkomulag er sérsniðið hverju sinni eftir þörfum einstaklinga og hópa, en unnið er út frá safnkostinum og gildi hans. Sérstök áhersla er lögð á fróðleik um fólk af starfssvæði hússins og viðkomandi samtíma auk þess sem gjarnan er fjallað um sýn hönnuða á framsetningu sýninga og áherslur og hugmyndir sem þar liggja til grundvallar. Tekið er á móti skólahópum á sýningar og í heimsóknir á Héraðsbókasafn og fræðafólk sækir Héraðsskjalasafnið heim í margs konar erindagjörðum.  

Tekið er á móti hópum með vandaðri leiðsögn um söfn og sýningar og leitast við að vekja áhuga og miðla þekkingu.

Kappkostað er að bregðast vel við óskum um safnfræðslu og undirbúa hana með vönduðum hætti.  Að fræðslan sé aðgengileg og skýr en jafnframt sett fram á lifandi hátt og með góðri tengingu við þá einstaklinga og hópa sem sækja söfnin heim. Leitast er við að kynna safnfræðsluna á öllum skólastigum og að upplýsingar um hana séu aðgengilegar.  

Vönduð safnfræðsla stuðlar að því að auka lífsgæði manna með því að efla skilning þeirra á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru eða vísinda.

Nánar má sjá um móttöku hópa annars staðar hér á síðunni:

Almennir hópar
Skólahópar
Almennt um móttöku barna og ungmenna