Héraðsbókasafn Borgarfjarðar efnir nú í 12. sinn til sumarlesturs fyrir börn. Tímabil lestursins er frá 10. júní – 10. ágúst. Fyrir skömmu afhenti Ragnheiður Guðrún Jóhannesdóttir Sævari Inga héraðsbókaverði teikningu sína af einkennismynd verkefnisins en þetta er annað árið í röð sem hún teiknar hana. Ragnheiður Guðrún var að ljúka námi í 10. bekk Grunnskólans í Borgarnesi og hyggur á menntaskólanám í haust.
Öll börn á aldrinum 6-12 ára geta skráð sig í sumarlesturinn og tekið bækur að eigin vali til lestrar sér að kostnaðarlausu. Sérstakir happamiðar fara í pott fyrir hverja lesna bók en auk þess fá allir þátttakendur viðurkenningu í lok sumars á Uppskeruhátíð sumarlesturs.
Markmið verkefnisins er sem fyrr að viðhalda lestrarfærninni sem börnin öðlast um veturinn en um leið er lögð áhersla á að börnin lesi það sem þau sjálf langar til, hvort sem um er að ræða bók á sérstöku áhugasviði eða góða sögubók.
Öll börn geta gerst lánþegar. Æskilegt er að þau yngstu komi í fylgd fullorðinna fyrstu skiptin. Opið verður á bókasafninu alla virka daga í sumar frá 13 -18.
Sumarið er góður tími fyrir bóklestur, sama hvernig viðrar!
Ljósmynd: Teiknarinn Ragnheiður Guðrún Jóhannesdóttir ásamt Sævari Inga Jónssyni héraðsbókaverði. Myndataka: Ásthildur Magnúsdóttir.
Comments are closed