„Borgfirðingafélagið í Reykjavík var stofnað árið 1945 og var m.a. stofnaðili að Byggðasafni Borgarfjarðar.  Félagið hefur í gegnum árin átt fulltrúa í stjórn safnsins, fylgst með starfsemi þess og lagt því margt gott til. Félagið starfaði ötullega í sjötíu ár og voru stofnfélagar um 150 talsins. Vegna breyttra samfélagsaðstæðna hefur það nú lagt niður störf. Af því tilefni færði fráfarandi stjórn þess safninu veglega fjárupphæð, kr. 720.000, sem eftir stóð sem peningaleg eign þess.  Það var Þráinn Kristinsson frá Gunnlaugsstöðum í Stafholtstungum sem færði safninu gjöfina ásamt ýmsum gögnum um starfsemina sem lögð verða inn á Héraðsskjalasafnið. Þráinn var í stjórn félagsins allt frá árinu 1963 og kom hingað í umboði stjórnar. Fyrirhugað er að setja fróðleik um sögu félagsins hér inn á síðuna við fyrsta tækifæri og væru myndir frá starfi félagsins vel þegnar. Samkvæmt samtali milli aðila verður féð notað í þágu safnkosts Byggðasafnsins og verður nýtt í þeim tilgangi strax á næsta ári. 

Á þessum tímamótum ber að þakka það merka og farsæla menningarstarf sem unnið hefur verið af félögum Borgfirðingafélagsins gegnum tíðina. Félagið hefur verið og er einnig nú með gjöf sinni verðmætur stuðningur við borgfirskan menningararf.“

 

Ljósmynd: Þráinn Kristinsson og Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður skoða gögnin frá Borgfirðingafélaginu. Myndataka: Guðrún Jónsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed