Laugardaginn 28. september kl. 13.00 verður opnuð ný myndlistarsýning í Hallsteinssal.  Nefnist hún Litabækur og litir  og er fyrsta einkasýning Önnu Bjarkar Bjarnadóttur sem annars starfar sem framkvæmdastjóri hjá Advania en er einnig íþróttafræðingur fyrir utan að hafa sótt nám í myndlist og stundað hana eftir föngum.

Anna Björk er fædd og uppalin í Borgarnesi. Hún segir sjálf svo um verkefnið:

„Meginuppistaðan verður myndir úr Borgarnesi, en líka einhverjar úr öðrum bæjum og svo landslagsmyndir. Heiti sýningarinnar er lýsandi fyrir ferðalagið sem ég er á þessi misserin, að heimsækja aftur Önnu Björk 7 ára eða þar um bil, sem var alltaf að teikna og lita.

Það má segja að ég sé í heimsókn hjá æskunni, bæði í vali á myndefni úr Borgarnesi og Borgarfirðinum, en einnig í vatnslitunum, sem voru fyrstu litirnir sem ég prófaði til að mála með sem krakki, því þeir voru svo einfaldir og aðgengilegir. Svo hef ég gripið í myndlistina öðru hvoru á æviskeiðinu, var komin inn í myndlistaháskóla í Búdapest á sínum tíma, en guggnaði og fór í íþróttafræðina í staðinn og snerti varla pensil né blýant í mörg herrans ár.

Þegar ég flyt svo aftur í Borgarnes 1994 á fullorðins aldri, er ég dregin inn í nýstofnað Handverksfélagið Hnokka, hvar ég fór á málaranámskeið og tók þátt í samsýningu í Reykholti m.a. Þessar tilraunir þá urðu til þess að ég fór að keyra vikulega í Myndlistaskólann í Reykjavík, þar sem ég sótti öll námskeið sem í boði voru næstu árin í teikningu, módelteikningu og síðar olíumálun. Ég var með vinnustofu í nokkur ár með öðrum listamönnum, fyrst í Auðbrekku í Kópavogi og síðar í gömlu prentsmiðjunni í Suðurgötu í Hafnarfirði þar sem ég málaði olíumálverk. Þegar örverpið fæddist svo 2011 varð ég að hætta því vegna tímaleysis og vegna þess hve erfitt er að vera með olíulitina upp um allt í íbúð með ungabarni. Þá fór ég aftur að prófa vatnslitina, sem hægt er að grípa í hvenær sem er og án mikils umstangs og komst að því sem auðvitað er raunin; þeir eru ekki eins einfaldir og þeir virðast í fyrstu. Þú veist aldrei alveg hvernig útkoman verður og færð ekki margar tilraunir, því erfitt er að leiðrétta mistök. Hins vegar eru þeir svo gefandi einmitt vegna þessa og vegna þeirrar einstöku birtu og flæði lita sem hægt er að skapa með þeim. Mér finnst ég vera aftur orðin sjö ára þegar ég fer að leika mér með liti og vatn og ég endurupplifi og ferðast um æskuslóðir og minningar með því að mála þær.“

Íbúar og gestir Borgarfjarðar hafa gegnum tíðina verið duglegir að sækja listsýningar í Safnahúsinu og margir listamenn í héraðinu hafa sýnt þar. Hallsteinssalur er kenndur við listvininn Hallstein Sveinsson sem gaf Borgnesingum stórmerkt listaverkasafn sitt á sínum tíma.

Sýning Önnu Bjarkar verður opin kl. 13.00-16.00 á opnunardaginn og eftir það 13.00-18.00 alla virka daga fram að 29. október eða á öðrum tímum fyrir hópa eftir samkomulagi. 

Categories:

Tags:

Comments are closed