Þriðjudaginn þann 13. nóvember n.k. verða haldnir nokkuð sérstæðir tónleikar í Safnahúsi. Um er að ræða samstarf við Tónlistarskóla Borgarfjarðar, en stofnanirnar tvær hafa tekið saman höndum í að vekja athygli á gamla þuluforminu og hvetja til sköpunar á grundvelli þess. Um leið er skáldkonunnar Guðrúnar Jóhannsdóttur frá Sveinatungu (sem skáldkona kenndi Guðrún sig við Brautarholt) minnst, en á þessu ári eru 120 ár frá fæðingardegi hennar. Við sama tækifæri verður opnuð sýning á ljóðum barna í 5. bekkjum grunnskólanna á svæðinu og er það í áttunda sinn sem það er gert.

Guðrún Jóhannsdóttir var eitt fárra seinni tíma skálda sem ortu undir þuluhætti og er úrval af þulum hennar notað sem efniviður. Verkefnið hefur unnist þannig að nemendur hafa hlýtt á upptökur frá Árnastofnun til að heyra hvernig kveðið var. Síðan hafa þeir unnið með textana í frjálsri sköpun og tjáningu undir leiðsögn kennara.

 

Sýning á ljóðum barna í 5. bekkjum grunnskólanna hefur verið haldin um árabil í Safnahúsi í tengslum við Dag íslenskrar tungu. Þannig má segja að margar fræðslustofnanir sveitarfélagsins komi að hátíðinni sem verður sem fyrr segir haldin í Safnahúsi 13. nóvember og hefst kl. 18.00.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed