Kveðja

Haustkul af norðri brottu ber
blómkrónu dána. Lát það hvísla
örlagaspám í eyru þér.
Er skarður máni í skýjum fer
er skjól okkar þessi hrísla.

Ég er á leið til ljóðvakans
ljósu stranda. Mér dísir sungu:
Á vetrarkvöldi þú kemst til lands;
langsótt er hafið, en leikur hans
er lífgjafi þinnar tungu.

Barrkrónan skelfur særð og sjúk
er svalinn slær hana fastar og tíðar.
Stormurinn ber þér frost og fjúk.
En mjöllin sem kemur köld og mjúk
ber kvæði mitt til þín síðar.

Þorsteinn frá Hamri

 

 

Þorsteinn frá Hamri. 1998. Ritsafn, bls. 12. Iðunn, Reykjavík. Birt í tilefni af degi íslenskrar tungu 2016.
Ljósmynd: horft á haf út í Straumfirði á Mýrum (GJ).

Categories:

Tags:

Comments are closed