Í dag fagnar stórleikarinn, söngvarinn og hestamaðurinn Jón Sigurbjörnsson níræðisafmæli sínu. Jón fæddist þann 1.nóvember 1922, yngri sonur hjónanna Sigurbjörns Halldórssonar og Ingunnar Einarsdóttur. Fjölskyldan bjó um tíma á Ölvaldsstöðum og á Beigalda í Borgarhreppi en flutti í Borgarnes árið 1926. Jón vann við ýmis störf sem ungur maður í Borgarnesi m.a. við bifreiðaakstur en lagði seinna stund á leiklistarnám í Reykjavík og síðar í Bandaríkjunum. Þá stundaði hann einnig söngnám á Ítalíu um tíma. Skemmst er frá því að segja að Jón hefur verið einn ástsælasti leikari þjóðarinnar en ferill hans sem atvinnuleikara í leikhúsum spannar heil 43 ár. Mörg síðustu ár hefur Jón búið í Biskupstungum og stundað þar hestamennsku af miklum myndarskap.

Of langt mál er að rekja leik-og söngferil Jóns ítarlega hér en fyrstu skrefin á þeirri braut steig hann raunar heima í Borgarnesi. Þar tóku nokkrir piltar sig til og stofnuðu kvartett sem nefndur var Hörpukvartettinn en auk Jóns voru meðlimir hans Halldór bróðir Jóns, Eðvarð Friðriksson og Ragnar Jónsson. Undirleikari var Unnur Gísladóttir sem þá var einnig kirkjuorganisti. Kvartettinn söng töluvert um tíma í nágrenninu. Þá lék Jón um tíma á harmonikku fyrir dansi, víða í héraðinu.

 

Fyrsta leikhlutverk Jóns var smáhlutverk í leikritinu Malti og Palti sem sýnt var á vegum Ungmennafélagsins Skallagríms í samkomuhúsinu í Borgarnesi.  Þá var Jón um fermingu og lék þar gamla konu í peysufötum. Örfáum árum síðar tók hann þátt í uppfærslu Haraldar Á. Sigurðssonar á Þorláki þreytta í Borgarnesi. Þegar Haraldur vissi að Jón væri á leið til Reykjavíkur í gagnfræðanám hvatti hann unga manninn til að sjá sýningar í Iðnó og greiddi götu hans svo úr mætti verða, þar með var boltinn farinn að rúlla. Þá lék Jón á Borgarnesárum sínum einnig í revíunni Héraðssaga Borgnesinga sem Minnsta samvinnufélagið sf. setti upp. Nokkrir hafa verið nefndir til sögunnar sem höfundar hennar, nafn Guðmundar Sigurðssonar hins kunna revíuhöfundar hefur þó hvað oftast verið nefnt í því sambandi.

 

Jón setti upp sín fyrstu leikrit heima veturinn 1948-49 en á ferli sínum leikstýrði hann um 20 leikhúsverkum á árabilinu1957-1990. Þar má nefna Fló á skinni en verkið er eitt allra vinsælasta leikverkið sem á íslenskar leikhúsfjalir hefur ratað. Jón stýrði því verki í tveimur uppfærslum með 18 ára millibili.

 

Jón hefur jafnframt lagt fyrir sig kvikmyndaleik, m.a. sýndi hann óborganlega frammistöðu í kvikmyndinni Magnús sem Þráinn Bertelsson leikstýrði árið 1989. Árið 2004 fór Jón með aðalhlutverkið í stuttmynd Rúnars Rúnarssonar sem nefnist Síðasti Bærinn en myndin hefur verið marglofuð víða um lönd.

 

Jón söng einnig mörg hlutverk í óperuuppfærslum og leikstýrði sýningu Þjóðleikhússins á Carmen 1975.  Árið 1977 kom út hljómplatan Fjórtán sönglög eftir fjórtán íslenska höfunda á vegum SG hljómplatna með söng Jóns þar sem Ólafur Vignir Albertsson lék undir á píanó.  Árið 2003 gaf Ríkisútvarpið út veglegan geisladisk með söng Jóns undir yfirskriftinni Útvarpsperlur.

 

Jón giftist Þóru Friðriksdóttur en þau skildu, dætur þeirra eru tvær, Lára og Kristín.

 

Safnahús færir Jóni Sigurjörnssyni bestu hamingjuóskir í tilefni dagsins og þakkar honum hans mikla framlag til sinnar þjóðar.

 

Mynd, efri röð frá vinstri: Jón, Anna Pálína Jónsdóttir kona Halldórs, Halldór. Neðri röð: Ingunn, Sigurbjörn, Inga Björk dóttir Önnu og Halldórs situr hjá ömmu sinni.

Eigandi myndar: Jenný Halldórsdóttir.

 
Samantekt: Sævar Ingi Jónsson
Helsta heimild: Sú dimma raust (ævisaga Jóns Sigurbjörnssonar) Jón Hjartarson skráði, Vaka-Helgafell 2001.

Categories:

Tags:

Comments are closed