Ein gersema Byggðasafns Borgarfjarðar er lítið jólatré sem Guðmundur Böðvarsson skáld á Kirkjubóli í Hvítársíðu smíðaði. Það er allt árið á sýningu í Safnahúsi og á aðventunni er það sett við inngang bókasafnsins þar sem flestir gestir hússins ganga hjá. Af þessu tilefni sendi Böðvar sonur Guðmundar okkur litla sögu um tréð fyrir nokkrum árum og er hún svona: 

Við krakkarnir skreyttum það með pappírsborðum og svo stóð það á stofuborðinu og við fengum heitt kakó og kökur þegar öllum gegningum var lokið og öðrum verkum á aðfangadagskvöld og búið að hlusta á útvarpsmessu frá dómkirkjunni í Reykjavík, ýmist var það séra Bjarni eða Jón Auðuns, og mér fannst þeir geta talað ótrúlega lengi og missti alltaf þráðinn. Loks þegar Páll Ísólfsson fór að spila lagið úr Töfraflautunni vissi maður að þessu var að ljúka og jólin gengin í garð.  Líklega hef ég verið fjögurra – fimm ára þetta tiltekna kvöld en þá kviknaði í pappaskrautinu á jólatrénu meðan við sátum við kökuborðið og móðir mín var handfljót að þrífa könnuna með kakóinu og hella á eldinn. Mig minnir að mér hafi fundist þetta óþarfa sóun á góðum drykk. Aðfangadagur og aðfangadagskvöld var ágætt í sjálfu sér, en skemmtilegast var þó á jóladag því þá spiluðu allir púkk, krakkar og fullorðnir – upp á eldspýtur.  Það var mikil hátíð.

Það lætur ekki mikið yfir sér jólatréð frá Kirkjubóli en það minnir okkur á að stundirnar geta verið dýrmætar þótt ekki sé endilega miklu til þeirra kostað af peningum.

Ljósmynd efst:  Í sól og sumaryl á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Kristín Guðmundsdóttir, Guðmundur Böðvarsson, Ingibjörg Sigurðardóttir, Ingibjörg Ólafsdóttir og Erla Jónsdóttir. Bræðurnir Sigurður og Böðvar krjúpa fyrir framan hópinn (Skáldið sem sólin kyssti 1994: 278).

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed