Í nýjustu útgáfu Grapevine má sjá opnugrein um grunnsýningar Safnahúss og sérstaklega vakin athygli á listfengi þeirra. Sýningarnar tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna, eru báðar hannaðar af Snorra Frey Hilmarssyni. Hann nálgast viðfangsefnið á kyrrlátan en frumlegan hátt og vekur sýningargesti til umhugsunar meðan gengið er um sýningarsvæðið. Lagt var til grundvallar að sýningarnar hentuðu bæði innlendum og erlendum gestum og öllum aldri með áherslu á aðgengileika. Segja má að að baki þeim búi alþjóðleg hugsun og þar sé jafnframt að finna sterk skilaboð til nútímans.
Í sýningunni Börn í 100 ár er saga 20. aldar á Íslandi tjáð í ljósmyndum af landinu öllu og hugsuð út frá æskunni. Miðpunkturinn er gamla baðstofan frá Úlfsstöðum í Hálsasveit, en hún var tekin niður og skrásett til geymslu á 8. áratug síðustu aldar og endurbyggð á sýningunni árið 2008. Auk ljósmynda eru munir Byggðasafns Borgarfjarðar kjölfesta sýningarinnar.
Ævintýri fuglanna er sýning úr merku fuglasafni Náttúrugripasafns Borgarfjarðar og er helguð minningu Sigfúsar Sumarliðasonar fyrrv. sparisjóðsstjóra í Borgarnesi. Eins og Börn í 100 ár er hún hönnuð með alþjóðleikann að leiðarljósi og í henni felst dýpri hugleiðing um frelsið sem fuglarnir njóta í háloftunum.
Báðar sýningarnar henta einkar vel til safnfræðslu og eru kennarar og skólastjórnendur duglegir við að nýta sér þær til skólaheimsókna. Jafnframt eru þær sjálfstæð listaverk, eins konar innsetningar. Í umfjöllun Grapevine er sérstaklega bent á listrænar áherslur í starfi Safnahúss, enda er þar byggt á hugmyndafræði listvinarins Hallsteins Sveinssonar (1903-1995) sem gaf listaverkasafn sitt til Borgarness á sínum tíma. Hann var þeirrar skoðunar að listin væri mannbætandi og ætti að vera aðgengileg sem flestum.
Árherslur Safnahúss á skapandi listir í safnastarfi hafa fengið góðar undirtektir þeirra sem sækja húsið heim. Þess má geta að á næsta ári verða fjórar listsýningar í Hallsteinssal auk byggðasýningar um Hvítárbrúna við Ferjukot, en sú sýning verður opnuð 1. nóvember n.k. og stendur fram í mars 2019.
Sjá má umfjöllun Grapevine með því að smella hér.
Ljósmynd með frétt: Af sýningunni Ævintýri fuglanna (GJ)
Comments are closed