Tvö gömul hús í Borgarnesi hafa nú horfið af sjónarsviðinu og var það síðara rifið fyrir nokkrum dögum, Var það „Veggir“ eða Gunnlaugsgata 21 b sem stóð á klettabrún við hlið Grunnskólans.  Hitt húsið var „Dýralæknishúsið,“ sem rifið var í fyrrasumar.  Ástæða þessa eru breytingar á lóðinni við Grunnskólann skv. deiliskipulagstillögu sem lögð var fram vegna undirbúnings viðbyggingar við skólann á sínum tíma. Byggðasafn Borgarfjarðar hefur lagt áherslu á að húsin fengju að standa vegna gildis þeirra sem sérkenna í bæjarlandslagi. En því miður náðist ekki að stuðla að endurbyggingu þeirra og tryggja þeim þannig áfram sinn stað í anda fyrri tíma.

Þess má geta að á þessu svæði hafa nú þegar orðið miklar breytingar. Templarahúsið (Mæjuhús), Klöpp og Þórshamar (Gunnlaugsgata 13) hafa horfið, svo og svokallað Friðborgarhús sem stóð þar sem Gunnlaugsgata 12 er í dag.  Ennfremur eru tvö hús vestast í Gunnlaugsgötu farin, Digranes sem brann 1920 og svokallað Immuhús sem stóð á sömu lóð.  Það síðarnefnda var rifið á níunda áratugnum.

Nú hafa því allmargir fulltrúar frumbyggjaáranna kvatt í bænum, sem byggðist upp á fyrri hluta 20. aldar. Húsin sem þá voru reist eru afar fjölbreytt í útliti en eiga það flest sameiginlegt að vera smá í sniðum þótt oft byggju í þeim mannmargar fjölskyldur.  Staðsetning húsanna er einkennandi fyrir bæjarstæði Borgarness, oft við kletta eða á klettabrúnum. Þetta setur fallegan svip á gamla hluta bæjarins og markar honum eldra yfirbragð.  Á yngri byggingasvæðum eru hús gjarnan stærri og þar má sjá stærri glugga og staðlaðra útlit auk einhæfari þakgerðar. Einnig eru nýrri hús byggð samkvæmt fyrirfram gerðu skipulagi, en elstu húsin ekki.

Þess má einnig geta að Gunnlaugsgata var áður tengigata milli Borgarbrautar og Kaupfélagshúsanna í Englendingavík. „Sneiðin“ tengdi göturnar saman þar sem „Himnastiginn“ er nú.  Húsin tvö sem nú eru farin voru því reist við götu þar sem nokkur umferð fór um.

Veggir
Þorbjörn Jóhannesson og Margrét Guðrún Sigurðardóttir fluttu í Borgarnes árið 1928 frá Stafholtsveggjum og var húsið kennt við bæinn og kallað Veggir. Árið 1929 voru íbúar í húsinu skráðir svo: „Þorbjörn Jóhannesson tómthúsm. f. 1866. Margrét Guðrún Sigurðardóttir h.k. f. 1875, ásamt börnum sínum.“

Þorbjörn og Margrét Guðrún áttu níu börn, tvö dóu í frumbernsku. Fjölskyldan hélt skepnur og voru útihús á lóðinni, þau hafa einnig horfið á síðustu árum.  Jóhannes sonur hjónanna (Jói á Veggjum) bjó loks einn í húsinu í tæp 30 ár eftir daga foreldra sinna, hann lést 23. október 2009.

 

Gunnlaugsgata 21 – „Dýralæknishúsið“ 
Húsið var byggt árið 1936 og var 125,8 fm að stærð. Það var reist af Paul Chr. Ammendrup klæð- og feldskerameistara og eiginkonu hans Maríu S. Ammendrup. Bjarni Bachmann safnvörður kallar húsið „Klæðskerahúsið” í gögnum sínum um hús í Borgarnesi.  Hjónin fluttu í Borgarnes frá Danmörku og bjuggu þar í eitt ár, síðar í Reykjavík.

Ljósmyndir: Bjarni Bachmann og Guðrún Jónsdóttir

Categories:

Tags:

Comments are closed