Á þessum vikum hverfa tvö gömul hús í Borgarnesi af sjónarsviðinu til að rýma fyrir stækkun lóðar við grunnskólann, þar sem viðbygging er í smíðum.

Annað húsanna hefur þegar verið rifið og var það svokallað Dýralæknishús eða Gunnlaugsgata 21. Það stóð á brekkubrúninni sunnan við skólann. Húsið var byggt árið 1936 og var 125,8 fm., það var á sínum tíma reist af Paul Chr. Ammendrup klæð- og feldskerameistara og eiginkonu hans Maríu S. Ammendrup. Bjarni Bachmann safnvörður til áratuga kallaði húsið „Klæðskerahúsið”. Ammendruphjónin fluttu í Borgarnes frá Danmörku og bjuggu þar í eitt ár, síðar í Reykjavík.

Á meðfylgjandi myndum sést húsið og að baki þess er svokallað Veggjahús, sem auglýst hefur verið til niðurrifs og/eða flutnings, mynd af því fylgir líka með, það var byggt árið 1929 (124 fm) og voru það hjónin Þorbjörn Jóhannesson (f. 1866) og Margrét Guðrún Sigurðardóttir (f. 1875) sem fluttu í Nesið árið 1928 frá Stafholtsveggjum. Húsið kennt við bæinn. Þau áttu níu börn, tvö dóu í frumbernsku. Þau voru með skepnur og var útihús byggt á lóðinni.  Jóhannes sonur hjónanna (Jói á Veggjum) bjó loks einn í húsinu í tæp 30 ár eftir daga foreldra sinna.

Einnig má hér sjá mynd af næsta húsi við Þessi tvö, þ.e. Gunnlaugsgötu 17 (Ásbjarnarhús), sem gert hefur verið upp af mikilli prýði.

Upprunalega stóð til að rífa það hús einnig til að stækka athafnasvæði skólans, en hætt var við þá aðgerð. 

Myndir með frétt: Guðrún Jónsdóttir, ágúst 2018.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed