Fimmtudaginn 8. ágúst n.k. flytur Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir fyrirlestur í Safnahúsi. Efni hans er samtímalist og heiti erindisins er Hvað er samtímalist og hvers vegna er svona erfitt að skilja hana?
Fyrirlesturinn hefst kl. 19.30 og er upptaktur að Plan-B Art Festival sem fer fram dagana 9. –11. ágúst í Borgarnesi.
Inga Björk er sjálfstætt starfandi listfræðingur og sýningarstjóri og leggur nú lokahönd á meistaragráðu í listfræði frá Háskóla Íslands. Í fyrirlestri sínum í Safnahúsi fer hún á léttum nótum yfir hvað samtímalist er og hvers vegna erfitt getur reynst að skilja hana.
Inga Björk er fædd árið 1993. Hún sleit barnsskónum í Borgarnesi og er einn stofnenda listahátíðarinnar Plan-B Art Festival sem haldin hefur verið ár hvert í Borgarnesi frá árinu 2016. Hátíðin hefur vakið mikla athygli og m.a. komist á Eyrarrósarlistann, en þar eru verðlaunuð framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Það er afar ánægjulegt að fá Ingu Björk til samstarfs um þetta efni og er vonast til að sem flestir sjái sér fært að mæta. Fyrirlesturinn tekur um klukkutíma og að honum loknum verður óformlegt spjall og heitt á könnunni.
Ljósmynd: Gunnhildur Lind Hansdóttir.
Comments are closed