Undirbúningur vegna sýningar um sr. Magnús Andrésson á Gilsbakka (1845-1922) stendur nú yfir í Safnahúsi. Sr. Magnús gegndi mörgum merkum hlutverkum í héraði á sínum tíma og fyrir utan prestsstörfin má nefna að hann var alþingismaður Mýramanna, virtur kennari og homopati sem leitað var til víða að af landinu. Meðal hollvina sýningarinnar er Ásgeir Pétursson fyrrv. sýslumaður sem hefur afhent Héraðsskjalasafninu mikið af gögnum af þessu tilefni, en sr. Magnús var afi hans. Fyrir stuttu kom sending frá Ásgeiri þar sem m.a. var að finna bréf skrifað árið 1915. Bréfritari er Eggert Eiríksson, faðir tæplega fjögurra ára telpu sem er lystarlítil eftir veikindi.

Eggert hefur í bréfinu áhyggjur af heilsufari dóttur sinnar og biður sr. Magnús um að senda sér eitthvað handa henni sem muni aðstoða hana við að ná bata, hún sé lystarlaus eftir kvef og önnur veikindi því tengd.  Með sendir hann sjúkdómslýsingu.

 

 

Eggert Eiríksson bjó í Borgarnesi  frá árinu 1907 ásamt konu sinni Margréti og áttu þau tvö börn, Ragneyju, sem gjarnan er kölluð Eyja af kunnugum, og Þórð. Eyja er fædd í Dal í Borgarnesi, en þangað fluttu foreldrar hennar árið 1911, árið sem hún fæddist. Eggert pabbi hennar var skósmiður og var með umboðssölu á skófatnaði á tímabili. Hann var frá Hamri í Þverárhlíð. Hann dó úr lungnabólgu árið 1923 þegar Eyja var bara 12 ára.  Þá þurfti Margrét kona hans að bjarga sér og leigði hluta hússins út frá sér. „Hún hafði sjálf eldhús í kjallaranum, svo svaf hún með börnin í einu herbergi og hafði stofu í öðru. Þetta blessaðist allt saman og allir voru glaðir.“  sagði Eyja í viðtali við Guðrúnu Jónsdóttur og Ingibjörgu Hargrave árið 2009.

 

Sr. Magnús skráði efst á bréf Eggerts hvað það var sem hann sendi litlu telpunni til að hún næði betri heilsu. Eitt er víst að það hefur verið eitthvað gott því Eyja er nú orðin 99 ára og verður 100 ára í júní  á næsta ári. Hún er búsett á Dvalarheimili aldraðra í Borgarnesi þar sem henni hafa nú verið sýnd bréfin sem hér um ræðir og færð afrit af þeim til eignar. Þótti henni vænt um að sjá skrift föður síns og umhyggju hans fyrir heilsufari hennar fyrir 95 árum.  Það er af sögu bréfanna að segja að sr. Magnús var mjög vandvirkur og samviskusamur embættismaður og varðveitti afar vel þau bréf og gögn sem honum bárust. Eftir lát hans árið 1922 hefur bréfasafn hans verið varðveitt af fjölskyldunni og nú síðast af Ásgeiri sonarsyni hans sem nú býr í Kópavogi. Safnið er nú á leið heim í hérað á áföngum, til varðveislu í Héraðsskjalasafninu.

 

Á myndunum má sjá hluta bréfsins og sjúkdómslýsingarinnar ásamt mynd af Ragneyju Eggertsdóttur.  Ljósmyndir: Guðrún Jónsdóttir.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed