Böðvar Guðmundsson skáld er áttræður í dag. Hann fæddist 9. janúar 1939 á Kirkjubóli í Hvítársíðu, sonur hjónanna Guðmundar Böðvarssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur. Böðvar hefur sent frá sér fjölbreytt höfundarverk og þýðingar á verkum fyrir börn og fullorðna. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Austan Elivoga, kom út árið 1964. Skáldsögur hans um ferðir Íslendinga til Vesturheims hafa vakið mikla athygli og hlaut Böðvar Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þá síðari. Böðvar hefur einnig samið fjöldann allan af söngtextum.

Þótt Böðvar sé búsettur í Danmörku hefur hann ætíð fylgst vel með starfi Safnahúss og hefur veitt dygga aðstoð í ýmsum verkefnum er varða arfleifð foreldra hans. Næsta verkefni eru tónleikar í Safnahúsi í vor, honum til heiðurs á afmælisári, í samvinnu við Tónlistarskóla Borgarfjarðar.

Starfsfólk Safnahúss sendir Böðvari heillaóskir á þessum merkisdegi og birtir hér eitt hans þekktasta kvæði, Næturljóð úr Fjörðum.

Næturljóð úr Fjörðum

Yfir í Fjörðum allt er hljótt.
Eyddur hver bær hver þekja fallin.
Kroppar þar gras í grænni tótt
gimbill um ljósa sumarnótt.
Ókleifum fjöllum yfirskyggð
ein er þar huldufólksbyggð.

Bátur í vör með brostna rá
bíður þar sinna endaloka
lagði hann forðum landi frá
leiðina til þín um vötnin blá.
Aldrei mun honum ástin mín
áleiðis róið til þín.

Fetar þar létt um fífusund
folaldið sem í vor var alið
aldrei ber það um óttustund
ástina mína á vinafund.

Grær yfir leiði grær um stein
gröfin er týnd og kirkjan brotin.
Grasrótin mjúka græn og hrein
grær yfir huldufólksins bein
grær yfir allt sem áður var
ástin mín hvílir nú þar.

Categories:

Tags:

Comments are closed