Áramótamynd Safnahúss að þessu sinni er frá uppfærsla Ungmennafélagsins Dagrenningar í Lundarreykjadal á Sölku Völku árið 2011. Sú sýning var eins og ýmsar aðrar hjá því félagi mikið listrænt afrek.  Gífurleg vinna liggur líka að baki slíkri uppfærslu og á það jafnt við leikara sem aðra aðstandendur sýningarinnar. Framtak sem þetta er gott dæmi um þau afrek sem unnin eru í Borgarfjarðarhéraði á ári hverju á svið menningarog bera vott um þróttmikið og skapandi samfélag.  Safnahús lét ekki sitt eftir liggja á árinu. Auk tveggja grunnsýninga voru fimm sýningar í Hallsteinsal og að auki tvær veggspjaldasýningar og ein innsetning ásamt ýmsum viðburðum.  Helstu verkefni hússins verða nánar skilgreind í ársskýrslu hússins sem kemur út í febrúar. En þetta var það helsta:

Leikið með strik og stafi – Sýning Bjarna Guðmundssonar (opnuð 21. nóvember 2015). Sýningin stóð fram til 20. janúar 2016 og hlaut afar góðar viðtökur gesta. 

Beloved Borgarnes – Myndlistarsýning Michelle Bird, í Hallsteinssal frá 5. mars til 8. apríl. Listakonan stóð einnig fyrir teiknismiðju fyrir fullorðna á sýningartímabilinu.

Refir og menn – Á sumardaginn fyrsta (21. apríl) var opnuð sýning sem verið hafði í undirbúningi síðan í september 2015. Um var að ræða ljósmyndasýningu sem Sigurjón Einarsson vann í samstarfi við Safnahús og styrkt var af Safnaráði Íslands og Uppbyggingarsjóði Vesturlands. Sigurjón fékk að fylgjast með nokkrum refaveiðimönnum í héraði mánuðina fyrir opnun og tók ljósmyndir af þeim við vetrarveiði. Markmiðið með verkefninu var að veita verðmæta innsýn í störf refaveiðimanna sem allir vita að eru nauðsynleg en færri þekkja. Sýningin stóð fram til 11. nóvember og sáu hana rúmlega þúsund manns.

Ljóð Snorra Hjartarsonar – samstarf við Tónlistarskólann. Á sumardaginn fyrsta, 21. apríl voru haldnir tónleikar í Safnahúsi. Var þar um að ræða uppskeruhátíð þróunarverkefnis sem Safnahús og Tónlistarskóli Borgarfjarðar hafa unnið að á undanförnum árum og miðar að því að efla listræna sköpun ungs fólks á grundvelli borgfirskra texta. Var þetta í fjórða sinn sem slíkt samstarf fór fram og var efniviðurinn að þessu sinni ljóð eftir Snorra Hjartarson. 

Íslenski safnadagurinn 18. maí – Safnahús tók þátt í þessu landsátaki safna með því að bjóða upp á leiðsögn og hafa ókeypis inn á sýningar. 

Sumarlestur barna – Héraðsbókasafn Borgarfjarðar í Safnahúsi efndri í níunda sinn til sumarlesturs fyrir börn á aldrinum 6-12 ára. Tímabilið í ár var 10. júní-10. ágúst. Að þessu sinni tóku alls 23 krakkar þátt og lásu þeir 99 bækur alls.

Ný heimasíða –  Í maí leit ný heimasíða hússins dagsins ljós en hún hafði verið um hálft ár í undirbúningi. Sérstakur styrktaraðili síðunnar var Nepal hugbúnaður ehf sem setti hana upp að grunni til en síðan tók forstöðumaður við þróun hennar og lauk verkinu í apríl. Síðan er í WordPress umhverfi og aðlagar sig því að símum og öðrum miðlum sem tilheyra netnotkun í dag. 

Merkingar og þýðingar – Á árinu var komið fyrir betri merkingum á Safnahús. Orðið Museum var sett upp með stórum hvítum stöfum á framhlið hússins svo og bætt merking við inngang á sýningarnar Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna.  Á árinu var tekin í notkun frönsk þýðing á sýningartextum þar og bættist hún þá fyrir þær sem fyrir voru, þ.e. enskan og þýskan texta auk þess íslenska.

Pourquoi pas? – Í september var sett upp ný veggspjaldasýning í stigaholi Safnahúss.  Var þar um að ræða frásögn af hörmulega slysinu sem varð þann 16. september 1936 þegar franska rannsóknaskipið fræga Pourquoi pas sökk og 40 manns fórust.  Sú leið var að þessu sinni valin að minnast þessa með einfaldri frásögn á áberandi stað. Guðrún Jónsdóttir samdi texta og myndir voru sóttar í sjóð Héraðsskjalasafnsins.  Heiður Hörn hannaði sýninguna og hlaut lof fyrir smekklega og fallega útfærslu. Ný heimasíða Safnahúss var að þessu sinni einnig nýtt til miðlunar og var sýningin sett þangað inn í heild sinni bæði á íslensku og frönsku.  Fimmtudaginn 15. september kom margmenni í Safnahús í móttöku á vegum Borgarbyggðar til að minnast þessa atburðar. Þar tóku Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri og Geirlaug Jóhannsdóttir formaður byggðaráðs á móti gestum og sá fyrrnefndi flutti ávarp. Í hópnum var m.a. Annie Marie Vallin-Charcot barnabarn skipherrans og vísindamannsins Jean Babtiste Charcot. Einnig var franski sendiherrann Philippe O´Quin með í för; foringjar og undirforingjar af því skipi sem nú ber heitið Pourqui pas voru viðstaddir, svo og fulltrúi Landhelgisgæslunnar og fleiri aðila. Fjölskylda Kristjáns Þórólfssonar var einnig viðstödd, en hann var sá sem bjargaði þeim eina manni sem af komst úr öldurótinu þennan örlagaríka dag.  Sýning var af þessu tilefni sett upp í salnum á vegum Héraðsskjalasafns þennan dag, en margar gersemar tengdar atburðinum eru varðveittar í Safnahúsi, bæði munir, myndir og skjöl, m.a. persónuleg sendibréf Charcots.

Sýning Jóns R. Hilmarssonar – Sunnudaginn 27. nóv. kl. 15.00 var opnuð ný sýning í Safnahúsi.  Þar sýndi Jón R. Hilmarsson ljósmyndir sem hann hafði tekið á Vesturlandi. Við opnunina söng Alexandra Chernyshova nokkur lög og boðið var upp á veitingar.  Kl. 17.00 þennan sama dag voru ljósin tendruð á jólatré Borgarbyggðar við Kveldúlfsvöll í Borgarnesi og voru þessir tveir viðburðir auglýstir saman sem þótti gefa góða raun. Sýning Jóns hlaut góða umsögn gesta og var vel sótt. Hún stendur fram yfir áramótin.

 Jakob á Varmalæk– Þann 7. desember 2016 hefði Jakob Jónsson á Varmalæk orðið 100 ára. Af því tilefni var sett upp veggspjaldsýning um hann þar sem kveðskapur eftir hann var í fyrirrúmi.  Sýningin er við inngang Bókasafns og var hún hönnuð af Heiði Hörn Hjartardóttur. Á afmælisdaginn sjálfan bauð Safnahús börnum og tengdabörnum Jakobs til samverustundar í minningu hans og voru þeir Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri og Björn Bjarki Þorsteinsson forseti sveitarstjórnar viðstaddir auk starfsfólks hússins. 

Ljósmyndasamkeppni – Borgarnes á 150 ára afmæli árið 2017. Af því tilefni efndi Safnahús (Héraðsskjalasafn) til samkeppni um ljósmyndir teknar í eða við Borgarnes árið 2016. Markmiðið var söfnun sjónrænna samtímaheimilda um bæinn og var óskað eftir myndum sem sýndu mannlíf, umhverfi og byggingar. Tímabil myndatöku var 21. apríl – 31. október 2016 og var myndum skilað fyrir 7. nóvember 2016. Dómnefnd lauk störfum í nóvember. Nefndina skipuðu þau Heiður Hörn Hjartardóttir, Kristján Finnur Kristjánsson og Þorkell Þorkelsson. Annars vegar voru þrjár myndir valdar til 1. – 3. verðlauna og hins vegar 25-6 myndir sem fyrirhugað er að sýndar verði í Safnahúsi frá miðjum janúar og fram í mars 2017. 

Skráningar – Fyrir tilstilli Safnaráðs Íslands náðist að skrá alla gripi náttúrugripasafns í Sarp og var í árslok einungis steinasafn þess eftir. Ennfremur voru skráningar listasafns yfirfarnar. Allar nýskráningar eru nú gerðar í þennan viðurkennda gagnagrunn safna.  Í desemberbyrjun var í fyrsta sinn farið að skrá ljósmyndir í Sarp og höfðu í árslok um 230 myndir verið skannaðar, merktar og skráðar. Þar með var þeim áfanga náð að eitthvað af safnkosti allra safna hússins hafi verið skráður í Sarp þótt margt sé enn óunnið af eldri skráningum.

Borgfirskir höfundar – Um nokkurt skeið hefur í Safnahúsi verið unnið að samantekt á upplýsingum um borgfirska höfunda og hagyrðinga. Hefur víða verið leitað fanga í þessu verkefni enda er það umfangsmikið. Merkur áfangi lá fyrir í árslok í formi nafnalista þar sem sjá má á fimmta hundrað nafna. Listann setti Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður saman og styrktaraðili verkefnisins var Akkur, styrktar og menningarsjóður VM- Félag vélstjóra og málmtæknimanna Eru stjórn sjóðsins færðar miklar þakkir fyrir trú hennar á gildi verkefnsins.  Tekið skal fram að listinn verður áfram í vinnslu þótt miklu verki sé lokið og verður það um óákveðinn tíma, hann uppfærist jafnóðum og er aðgengilegur á heimasíðu Safnahúss undir Fróðleikur.

 

Önnur verkefni – Til viðbótar ofangreindu var unnið að ýmsum sérverkefnum. Starfsemi safnanna á árinu var kraftmikil og fjölbreytt og þau voru áberandi þáttur í samfélaginu.  Hér skulu nefnd nokkur dæmi:

Bjarni Bachmann – Í apríl færði fjölskylda Bjarna Bachmann Safnahúsi góða gjöf. Um var að ræða íþróttasafn Bjarna, bækur og muni sem tilheyrðu þessu mikla áhugamáli hans.  Safninu hefur verið komið fallega fyrir í vönduðum hillum og skápum sem fylgdu gjöfinni.  Dagurinn til afhendingarinnar var valinn 27. apríl vegna þess að hann er afmælisdagur Bjarna sem var fæddur 1919 og lést árið 2010. Viðstödd afhendinguna var fjölskylda Bjarna auk sveitarstjóra, sveitarstjórnarmanna og starfsfólks Safnahúss.  Bjarni Bachmann gegndi safnvarðarstarfi fyrir borgfirsku söfnin árin 1969-1994 eða í aldarfjórðung.  Hann vann mikið og óeigingjarnt starf fyrir söfnin á upphafsárum þeirra, ásamt eiginkonu sinni Önnu Þ. Bachmann sem einnig starfaði þar. Þau höfðu verið búsett í Borgarnesi ásamt fjölskyldu sinni frá árinu 1961.  Voru fjölskyldunni færðar bestu þakkir fyrir þann hlýhug sem svo góð gjöf bar vott um.

Hlíðartúnshúsin – Safnahús sótti um styrk frá Minjastofnun vegna Hlíðartúnshúsanna í Borgarnesi, en þar er um að ræða gömul torfútihús, sem eru verðugur fulltrúi þess tíma þegar búskapur var stundaður í þorpinu á upphafsárum þess. Styrkur fékkst upp á kr. 500.000 og sá eignasvið Borgarbyggðar um framkvæmdir.

Jólatré Guðmundar – Einnig má nefna að árlega er á aðventu litlu jólatré stillt upp sem nokkurs konar innsetningu. Tréð smíðaði Guðmundur Böðvarsson skáld á Kirkjubóli og við hlið þess er frásögn af jólaminningu eftir Böðvar son hans. Tréð stóð á tveimur dúkum sem Ingibjörg Sigurðardóttir eiginkona Guðmundar saumaði.

Haförn á fuglasýninguna – snemma vors ákvað Náttúrufræðistofnun Íslands að taka jákvætt í beiðni Safnahúss um að fá örn á sýninguna Ævintýri fuglanna.  Í framhaldi af því kom Snorri Freyr Hilmarsson hönnuður í Borgarnes og mælti fyrir um hvar örninn skyldi staðsettur. Um er að ræða össu sem stoppuð er upp í sitjandi stellingu. Hún fannst rekin árið 1959 í Rauðasandsheppi. Fuglinn er ungur, en engu að síður með 220 cm vænghaf.  Var þetta kærkomin og langþráð viðbót við sýninguna.

Miðlað af reynslu – nokkur sveitarfélög höfðu samband við Safnahús á árinu til að fá upplýsingar um rekstrarfyrirkomulag stofnunarinnar og hvernig hún fylgdi menningarstefnu Borgarbyggðar. Fór forstöðumaður m.a. með fyrirlestur í Stykkishólm á vel sóttan fund sem þar var haldinn um menningarmál í tengslum við gerð menningarstefnu þar. Ennfremur flutti sama stutt erindi á vorfundi Þjóðminjasafns, um samstarf og tengsl Safnahúss við skapandi greinar.

Starfsáætlun og starfsstefna 2016-2019 – Ný fjögurra ára starfsáætlun safnanna var lögð fram á starfsmannafundi 2. nóvember og í framhaldinu í byggðaráði og sveitarstjórn.  Byggði hún að hluta á starfsáætlun 2016-2018 sem rædd var og þróuð á starfsmannafundum á árinu.

Upplýsingagjöf til sveitarstjórnar – Á árinu voru alls haldnir 14 starfsmannafundir. Var á þeim öllum rituð ítarleg fundargerð sem var send til sveitarstjórnar og sveitarstjóra strax að fundi loknum. Með þessum hætti eiga sveitarstjórnarmenn auðvelt með að fylgjast með starfseminni og fylgni hennar við menningarstefnu sveitarfélagsins. 

Að lokum skal þess getið að þróttmikið starf verður áfram unnið í Safnahúsi á árinu 2017 og hefst það með nýrri ljósmyndasýningu sem opnuð verður 14. janúar.  Nánar um það síðar.

Categories:

Tags:

Comments are closed