Laugardaginn 29. febrúar kl. 13.00 verður opnuð sýning í Hallsteinssal í sem ber yfirskriftina Landslag væri lítils virði …  

Þar verða sýndar landslagsmyndir úr safneign Listasafns ASÍ eftir Ásgrím Jónsson, Jón Þorleifsson og Jón Stefánsson auk verks í eigu Nýlistasafnsins  eftir hollenska listamanninn og Íslandsvininn Douwe Jan Bakker (1943-1997). 

Verk Bakker ber heitið ,,A Vocabulary Sculpture in the Icelandic Landscape‘‘ – Þrívíddarorðasafn í íslensku landslagi frá 1976-7 – og samanstendur af 72 ljósmyndum af ákveðnum þáttum úr landslagi og jarðfræði Íslands.

Douwe Jan Bakker kynntist fyrst íslenskum myndlistarmönnum (SÚM-urum) í Amsterdam um 1970.  Hann tók miklu ástfóstri við Ísland og íslenska menningu og kom margar ferðir hingað til lands bæði til að sýna og til að vinna hér verk. Honum var umhugað um með hvaða hætti íslenskt landslag endurspeglaði eitthvað sem kalla mætti persónueinkenni íslensku þjóðarinnar. Hann var djúpt snortinn af sterkum rótum menningarinnar í umhverfinu, í sjálfu landinu. Verkið á sýningunni snýst um tengsl tungumálsins – orða, heita og hugtaka – við landslagið.

Landslagsmálverkin á sýningunni, olíumálverk og ein vatnslitamynd, eru hluti af stofngjöf Ragnars í Smára til Listasafns ASÍ. Þau eru eftir Ásgrím Jónsson (1876-1958), Jón Stefánsson (1881-1962) og Jón Þorleifsson (1891-1961) og flest unnin í Borgarfirði á fyrri hluta síðustu aldar.  

Listasafn ASÍ var stofnað árið 1961.  Iðnrekandinn og bókaútgefandinn Ragnar Jónsson í Smára lagði grundvöllinn að safninu með því að gefa Alþýðusambandi Íslands málverkasafn sitt – alls 147 myndir – eftir marga af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar. Ósk Ragnars var sú að stofnað yrði listasafn sem kæmi listinni á framfæri við vinnandi fólk í landinu. Listasafn ASÍ hefur alla tíð starfað með þetta að leiðarljósi og hefur m.a. sérhæft sig í myndlistarsýningum sem settar eru upp á vinnustöðum og í stofnunum víða um land.  Safnið hefur vaxið jafnt og þétt frá stofnun þess fyrir tæpum sextíu árum og geymir nú rúmlega 4000 verk.  

Nýlistasafnið var stofnað árið 1978 af breiðum hópi myndlistamanna, sumir hverjir höfðu verið meðlimir í SÚM og aðrir voru enn við nám. Nýló er listamannarekið safn og sýningarrými, vettvangur uppákoma, umræðna og gagnrýnnar hugsunar.

Sýningin stendur fram til loka mars næstkomandi og sýningarstjóri er Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ. 

Ljósmynd: Verkið Strútur eftir Ásgrím Jónsson (1876-1958), frá árinu 1916.
Listasafn ASÍ.

Categories:

Tags:

Comments are closed