Einn fyrstu safngripa byggðasafnsins á nýju ári er úr strandi þýska togarans Ulrich Schulmeyer sem varð við Hjörsey í árslok 1924. Það er skrifborð úr skipsskrokknum sem Guðbrandur Sigurðsson (1874-1953) bóndi á Hrafnkelsstöðum keypti eftir strandið á kr. 2.650. Borðið keypti Ingólfur Guðbrandsson sonur hans (1902-1972). Eftir hans dag eignaðist María dóttir hans (1935-2016) borðið og síðast var það í eigu sonar hennar, Ingólfs Halldórssonar (1958-2017). Borðið er gjöf til safnsins í nafni hans og í minningu þeirra sem áttu það. Þess má geta að skipverjar á togaranum björguðust allir, ekki síst vegna aðstoðar staðkunnugra sem gátu leiðbeint björgunarbáti þeirra í land við erfiðar aðstæður og hlúð að þeim við komuna. Þeir sigldu svo heimleiðis til Þýskalands með skipinu Mercur um miðjan janúar 1925. Skrifborðið er nú komið í geymslur byggðasafnsins til minningar um þennan atburð og sést hér á mynd eftir Halldór Óla Gunnarsson verkefnisstjóra í Safnahúsi.

Þess má geta að skipverjar á togaranum björguðust allir, ekki síst vegna aðstoðar staðkunnugra sem gátu leiðbeint björgunarbáti þeirra í land við erfiðar aðstæður og hlúð að þeim við komuna. Þeir sigldu svo heimleiðis til Þýskalands með skipinu Mercur um miðjan janúar 1925. Skrifborðið er nú komið í geymslur byggðasafnsins til minningar um þennan atburð og sést hér á mynd eftir Halldór Óla Gunnarsson verkefnisstjóra í Safnahúsi.

Við vitnum í Morgunblaðið 14. janúar 1925: „Morgunblaðið hefur fengið nánari fregnir um það hvernig það atvikaðist að mennirnir komust af togaranum þýska, sem strandaði við Hjörsey á dögunum. Eftir þeim fregnum, sem hingað bárust, áttu skipverjar að hafa komist leiðsagnarlaust í land. En svo var ekki, og er fullyrt, að þeim hefði ekki orðið lífs auðið, ef menn hefðu ekki haft drenglund og áræði til þess, að vísa þeim rétta leið að lendingu. Togarinn strandaði rétt vestur af Hjörsey, svo nálægt eynni, að hægt er að ganga þaðan að honum um háfjöru. – Áður en skipverjar bjuggust að leita lands, kyntu þeir bál á þilfarinu, og sendu upp flugelda, auk þess sem þeir þeyttu eimpípur og lúðra, svo menn yrðu varir við þá úr landi. Það varð og. En svo stóð á í Hjörsey, að bátar voru þar allir uppsettir, svo ekki var hægt að grípa þar bát. Skutulsey er svo sem hálftíma róður í útnorður frá Hjörsey. Bóndinn þar heitir Jón Guðmundsson. Var þar ekki annað vinnandi karla, en hann og unglingspiltur 17 ára, Jón Hjaltalín Grímsson að nafni. Þaðan varð togarans vart. Brúnamyrkur var og brim mikið. En þó eigi væri þar annar mannskapur, en Jónarnir tveir og heimilisaðstæður þær, að flæðihætta er þar mikil, og viðbúið að sinna þyrfti fé þar á hverri stundu. Leggja þeir út í náttmyrkrið.Komu þeir að togaranum, er skipverjar eru að enda við að koma sér fyrir í skipsbátnum. Ætluðu skipverjar að halda skemmstu leið til lands, En sú leið var ófær með öllu, vegna boða og skerja. Geta Þeir Skutulseyjamenn gefið Þjóðverjunum ábendingu um það, að þeir eigi að koma á eftir sér, og beina þeir skipbrotsmönnum rétta leið að lendingarstað í Hjörsey, svo þeir komust þangað, sem fyrr sagt, allir heilir á húfi. Mælist þetta framtak Skutulseyjarmanna vel fyrir þar í sveitinni, enda vel þess vert, að þeir fái verðuga viðurkenningu fyrir.” (Úr bréfi af Mýrum).

Categories:

Tags:

Comments are closed