Það kemur fyrir að okkur berast frásagnir tengdar Hvítárbrúnni vegna sýningarinnar um hana sem opnuð var 1. nóv. s.l.. Sigurjón Jónasson á Egilsstöðum (áður í Staðarsveit) sendi okkur eftirfarandi ásamt þessari mynd og kunnum við honum bestu þakkir fyrir:

„Ég var að lesa eitthvað um Hvítárbrúna gömlu og góðu og minntist þá myndar sem ég á frá fyrri tíð, af nefndri brú. Ég er fæddur og uppalinn vestur í Staðarsveit á Snæfellsnesi og lærði á bíl hjá Sigurði Jónssyni vélstjóra hjá frystihúsi KB í Borgarnesi. Ég minnist þess að Siggi fór með mig a.m.k. þrisvar upp að Hvítárbrú og þá einkum til þess að skýra sem best út fyrir mér hvað maður þyrfti að gæta sín á brúnni. Benti hann mér á að þegar komið væri í beygjuna hjá Ferjukoti þá sæi ég veginn hinum megin brúarinnar með því að horfa undir bogann á brúnni. Þar með gæti ég séð umferð á móti og varast hana, en það væri auðveldara að fyrgjast með þessu vestan megin og því hægt að komast hjá því að bílar mættust á brúnni, sem var nokkuð aðgengt með viðeigandi rifrildi um, hvor ætti að bakka. Þetta er eitt af því fáa sem ég man ennþá úr ökunáminu fyrir utan að þá var aðeins eitt umf. merki sem mark væri takandi á. Þ.e. Z í þríhyrningi, sem var tákn um alla hættu framundan. Auk þess var prik, með litlu þverpriki efst,  sem táknaði útskot, en þá voru allir vegir einbreiðir. Þegar ég fór að rifja þetta upp með Hvítárbrúna, minntist ég myndar sem ég fók líklega seint um haustið 1960 (ekki alveg viss um tímann) og er sérstök fyrir það að það eru á henni tveit ESSO olíubílar af gömlu gerðinni. Áin á ís og veður gott. Þarna sést einnig vel á veginn „hinum megin”, sem ég átti að gæta mín vel á, að sögn Sigurðar.”

 

Categories:

Tags:

Comments are closed