Föstudaginn 20. apríl setja nokkrir myndlistarmenn upp Pop-up vinnustofu í Safnahúsi. Þar munu þeir teikna/mála gesti og gangandi og ýmis myndefni og verður hægt að kaupa verkin á staðnum. Ágóðinn rennur til starfsemi Safnahúss.
Pop up verkefni má líkja við óvæntar uppákomur og mætti í þessu tilviki þýða þetta sem „sprettvinnustofu.“ Listamennirnir eru þessir: Josefina Morell, Cristina Cotofana, Frans Van de Reep og Michelle Bird. Þau eru öll búsett í Borgarfirði. Cristina og Michelle hafa báðar sýnt í Hallsteinssal í Safnahúsi og Josefina mun sýna þar á árinu 2019. Cristina opnaði sýningu í salnum 10. mars s.l. og hafa fíngerðar pennateikningar hennar vakið verðskuldaða athygli. Föstudagurinn verður síðasti opnunardagur sýningar hennar. Þá munu listamennirnir breyta Hallsteinssal í vinnustofu sína frá kl. 13.00 til 18.00 og eru gestir boðnir velkomnir til að fylgjast með vinnu þeirra, sitja jafnvel fyrir og kaupa verk ef þeim sýnist svo. Ágóðinn rennur allur til rekstrar Safnahússins. Vilja þau með þessum hætti þakka fyrir mikilvægt hlutverk hússins í listalífi héraðsins.
Hallsteinssalur er nefndur eftir velgjörðarmanni Borgarness, Hallsteini Sveinssyni (1903-1995) sem gaf þangað mikið og sérstakt listmunasafn á sínum tíma. Í salnum eru fjölbreyttar myndlistarsýningar á ári hverju. Næsta sýning þar veðrur opnuð 5. maí næstkomandi og verða þar verk eftir Áslaugu Þorvaldsdóttur áhugaljósmyndara ásamt textum eftir Sigríði Kristínu Gísladóttur.
Vonast er til að sem flestir geti átt leið í Safnahúsið á föstudaginn og upplifa vinnustofustemninguna.
Comments are closed