Pourquoi-Pas (1)Um þessar mundir eru liðin 80 ár frá því að franska rannsóknaskipið Pourquoi pas strandaði við Straumfjörð með þeim afleiðingum að fjörutíu manns létust. Varð þessi hörmulegi atburður mörgum minnisstæður og vakti mikla samúð Íslendinga með frönsku þjóðinni.  Aðeins einn áhafnarmeðlimur komst lífs af, stýrimaðurinn E. Gonidec.  Var honum bjargað af Kristjáni Þórólfssyni, fóstursyni hjónanna í Straumfirði, Þórdísar Jónasdóttur og Guðjóns S. Sigurðssonar. Kristján var einungis 18 ára gamall og ósyndur og var það því mikið hugrekki af hans hálfu að stökkva í sjóinn og ná að bjarga Gonidec upp á klettana á milli öldufalla og í aftaka veðri.

Fimmtudaginn 15. september s.l. kom margmenni í Safnahús í móttöku á vegum Borgarbyggðar til að minnast þessa atburðar.  Þar tóku Gunnlaugur A. Júlíusson sveitarstjóri og Geirlaug Jóhannsdóttir formaður byggðaráðs á móti gestum og sá fyrrnefndi flutti ávarp.  Í hópnum var Annie Marie Vallin- Charcot barnabarn skipherrans og vísindamannsins Jean Babtiste Charcot sem fórst með skipinu. Hún hefur oft komið til landsins til að minnast afa síns og kom nú ásamt fjölskyldu sinni.  Einnig var franski sendiherrann Philippe O´Quin með í för; foringjar og undirforingjar af því skipi sem nú ber heitið Pourqui pas voru viðstaddir, svo og fulltrúi Landhelgisgæslunnar og fleiri aðila.  Fjölskylda Kristjáns Þórólfssonar var einnig viðstödd, svo og Serge Kahn, höfundur bókar um Charcot sem kom út árið 2006 í þýðingu Friðriks Rafnssonar.

Skjala- og ljósmyndasýning var í salnum á vegum Héraðsskjalasafnsins og var hún mikið skoðuð auk veggspjaldasýningar um Pourquoi pas slysið í stigagangi Safnahúss, hönnuð af Heiði Hörn Hjartardóttur. Margar gersemar tengdar þessum atburði eru varðveittar í Safnahúsi, bæði munir, myndir og skjöl, m.a. persónuleg sendibréf Charcots.

IMG_3844Alls komu um 70 manns í móttökuna í Safnahúsi þennan dag. Sérstakur heiðursgestur var frú Vallin-Charcot sem nú er áttræð, hún fæddist nokkrum vikum áður en afi hennar lést. Var hún mjög snortin og þakklát fyrir þá virðingu sem sveitarfélagið sýndi hinum látnu með þeim aðgerðum sem hér að ofan er lýst.  Á sínum tíma náði afi hennar að fá fregnir af fæðingu hennar áður en slysið varð en örlögin komu í veg fyrir að hann næði að sjá barnið.

Hópurinn hafði byrjað daginn með ferð í Straumfjörð þar sem minningarorð voru sögð og blómum varpað í hafið. Þar tók Svanur Steinarsson á móti hópnum, en hann hefur um langt skeið sýnt þessari minningu einstaka ræktarsemi og hann og fjölskylda hans hafa gætt vel að umhverfi flaksins.

Sýningin í Safnahúsi verður höfð uppi enn um sinn og hafa ýmsir lagt leið sína þangað til að skoða hana. Textar við hana eru á frönsku og ensku auk íslensku. Þess má geta sérstaklega að merkar ljósmyndir Finnboga Rúts Valdimarssonar sem teknar voru á slysstað eru nú í vörslu Héraðsskjalasafnsins og barst sú gjöf í vetur frá fjölskyldu Finnboga.

 

Efri ljósmynd: Pourquoi pas siglir úr Reykjavíkurhöfn um kl. 13.00 þann 15. september 1936 í stilltu veðri. Ljósmyndari óþekktur.

Neðri ljósmynd: gestir skoða skjöl og myndir ásamt Guðrúnu Jónsdóttur forstöðumanni. Frá vinstri: Serge Kahn, Anne Marie Vallin- Charcot, Philppe O´Quin sendiherra og Guðrún Jónsdóttir. Ljósmynd: Halldór Óli Gunnarsson.

Categories:

Tags:

Comments are closed