Á sumardaginn fyrsta verður mikið um dýrðir í Safnahúsi. Sýningin Refir og menn verður opnuð, en það er ljósmyndasýning Sigurjóns Einarsonar sem unnin er í samstarfi við Safnahús. Ennfremur verða uppskerutónleikar Tónlistarskóla Borgarfjarðar og Safnahúss. Þar flytja nemendur skólans eigin verk við ljóð borgfirskra skálda, að þessu sinni eftir Snorra Hjartarson.
Auk þessara tveggja viðburða er margt á döfinni í Safnahúsi sem nánar verður tilkynnt um á hátíðardagskránni 21. apríl. Athöfnin hefst kl. 15.00 með kynningu á verkefni Sigurjóns, þá taka við tónleikar og á dagskráin að taka rúmlega klukkutíma. Að henni lokinni verður boðið upp á veitingar. Aðgangur verður ókeypis og vonast er til að sem flestir leggi leið sína í húsið þennan dag, opið verður til kl. 18.00. Þess má geta að sýningin Refir og menn stendur fram til 11. nóvember 2016. Fram til 1. maí verður opið á virkum dögum 13-18, en í maí, júní, júlí og ágúst einnig 13-17 um helgar og á hátíðisdögum. Eftir 1. sept. tekur vetrartími aftur við.
Verkefnið Refir og menn er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.
No responses yet