Á þessu ár eru 150 ár liðin frá fæðingu tveggja frændsystkina sem tengjast bænum Húsafelli í Hálsasveit, þeirra Guðrúnar Jónsdóttur vinnukonu þar og Kristleifs Þorsteinssonar bónda og fræðimanns á Stóra Kroppi, en hann var fæddur á Húsafelli. Af þessu tilefni hefur verið sett upp örsýning í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi, þar sem ýmislegt sem tengist Guðrúnu og Kristleifi er sýnt og sagt frá ævi þeirra og fjölskyldu.
Guðrún Jónsdóttir (Gunna á Húsafelli) var fædd í Síðumúla í Hvítársíðu 26. ágúst 1861, dóttir Jóns Þorvaldssonar frá Stóra Kroppi og Helgu Jónsdóttur frá Deildartungu. Hún kom sem vinnukona að Húsafelli um 1880 og var þar alveg til ársins 1957 er hún fór að Gilsbakka þar sem hún lést 7. júní það ár. Á árum hennar á Húsafelli var bærinn í þjóðbraut og því mjög gestkvæmt. Þangað komu einnig merkir listamenn sem urðu góðir vinir Guðrúnar. Einn mesti dýrgripur hennar var vindlakassi sem Muggur (Guðmundur Thorsteinsson) gerði klippimynd á og gaf henni. Í honum geymdi hún tvær aðrar gjafir frá honum, silkiklút og bókina Íslensk ljóð sem hann áritaði til hennar. Þessir munir eru nú í eigu Byggðasafns Borgarfjarðar og eru hafðir uppi á sýningunni í Safnahúsi. Guðrún var bókelsk og ljóðelsk kona, hjartahlý og umhyggjusöm og naut verðskuldaðrar virðingar hjá samferðamönnum.
Kristleifur Þorsteinsson var fæddur á Húsafelli 5. apríl 1861 og var Snorri Björnsson langafi hans. Hann dvaldist á Húsafelli fram á fullorðinsár en bjó síðar á Stóra-Kroppi í Reykholtsdal. Kristleifur var þekktur fyrir merka sagnaritun sína um borgfirska hætti og sögu. Minni hans var afar gott og gat hann lýst atvikum úr bernsku sinni með glöggum hætti. Meðal rita sem eftir hann liggja er Úr byggðum Borgarfjarðar, greinasafn um mannlíf og verkhætti í Borgarfirði. Hann átti einnig stóran þátt í Héraðssögu Borgfirðinga og ritaði fjölda greina auk fréttapistla sem hann sendi reglulega í Lögberg, annað blað Íslendinga vestan hafs í um þrjátíu ár. Kristleifur náði háum aldri og hélt áfram að skrifa á meðan heilsan leyfði. Hann lést þann 1. október 1952.
Uppstilling sýningarinnar var í höndum Þóru H. Þorkelsdóttur sem unnið hefur verkefnavinnu í Safnahúsi á undanförnum mánuðum.
Sýningin verður höfð uppi til 13. nóvember og er opin alla virka daga frá 13-18.
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir.
Comments are closed