Næstkomandi laugardag, þann 20. júní, stendur Safnahús ásamt Landsbókasafni Íslands Háskólabókasafni fyrir málþingi um helstu hugðarefni Páls Jónssonar frá Örnólfsdal í Þverárhlíð. Páll hefði átt 100 ára afmæli þennan dag. Hann er mikill velgjörðarmaður Borgarfjarðar því hann ánafnaði Safnahúsi mikið bókasafn sitt sem af mörgum er talið eitt hið merkasta á landinu.
Sjá dagskrá Pálsstefnu með því að smella hér.
Sérstaða þess felst ekki síst í bókum sem bera sérstakan svip og eiga óvenjulega sögu og má nefna sem dæmi að í safninu er að finna bók úr eigu Brynjólfs biskups og er hún merkt honum. Ennfremur er þar að finna merkar frumútgáfur svo sem af Passíusálmum Hallgríms svo nokkuð sé nefnt.
Dagskrá Pálsstefnu hefst með því að Pálssafn í Safnahúsi verður opið almenningi frá kl. 11.00 – 12.00, en síðan hefst málþingið sjálft kl. 13.00 í Menntaskóla Borgarfjarðar. Þingið er haldið í samvinnu við Ferðafélag Íslands og Héraðsskjalasafn Skagfirðinga, en Páll átti farsæl störf fyrir Ferðafélagið um áratuga skeið og var þar heiðursfélagi. Ljósmyndasafn hans er varðveitt í Héraðsskjalasafni Skagfirðinga og á þinginu verða nokkrir tugir mynda hans sýndar.
Að loknu þingi býður Ferðafélagið til göngu í nágrenni Örnólfsdals og verður lagt af stað með rútu þangað kl. 16.15 og heimkoma áætluð um kl. 19.00. Aðgangur að allri dagskrá er ókeypis, en seldar verða veitingar í hléi á þinginu. Allir velkomnir.
Mynd: Páll Jónsson. Páll starfaði lengi sem bókavörður á Borgarbókasafninu. Myndin er tekin á heimili hans þar sem bækur skipuðu háan sess.
Comments are closed