Guðrún Brynjúlfsdóttir skáldkona fæddist á Kvígsstöðum í Andakíl 28.janúar 1904, þriðja í röð fimm barna hjónanna Brynjúlfs Jónssonar og Þórnýjar Þórðardóttur. Fyrstu níu ár ævi sinnar ólst Guðrún upp á bænum Veiðilæk í Norðurárdal en flutti þá í Borgarness og bjó þar til ársins 1932 er hún flutti til Reykjavíkur.  Guðrún var við nám í Hvítárbakkaskóla veturinn 1930-1931 og stundaði síðar söngnám og naut framsagnar í íslensku og ensku.  Hún var sjúklingur á Landakotsspítala árin 1935-1939 en sinnti eftir það saumaskap og barnagæslu í heimahúsum.  Guðrún hélt mikilli tryggð við þau börn sem hún gætti og hélt góðu sambandi við er þau uxu úr grasi en sjálf giftist hún ekki og eignaðist ekki afkomendur.

Guðrún sendi frá sér eina bók, Ýlustrá sem leit dagsins ljós árið 1981 en efni hennar varð þó til á löngum tíma og er að sama skapi fjölbreytt; ljóð, sögubrot og greinarkorn en áður hafði hún birt efni í blöðum og tímaritum.  Mörg kvæða sinna yrkir Guðrún  þekkt lög en sjálf lék hún á gítar. Einnig eru í bókinni nokkur kvæði sem samin hafa verið lög við, má þar nefna lag Skúla Halldórssonar tónskálds við kvæðið Álfkonan í einbúanum og lag Kristjáns M. Kristjánssonar frá Borgarnesi við Draumaprinsinn en fyrra erindið hljómar á þessa leið:

 

Ó, að ég aðeins væri,

ofurlítil dís.

Þangað fljótt ég færi,

er fyndist mér sælan vís.

Í þínum vestisvasa

væri hlýtt og rótt,

á harmoníum hjartans

að hlusta dag og nótt.

 

Þá eru ýmsar vísur ortar við hin ólíku tækifæri. Guðrún var trúuð kona einsog vel sést í sumum kvæðum hennar, til að mynda í ljóðinu Best er að biðja sem er með eldri ljóðum bókarinnar, ort 1926.

 

Það er svo ljúft að láta

um loftin hugann sveima,

það er svo gott að gráta,

Guðs í faðmi dreyma.

Best er þó að biðja,

bænheyrslu að fá,

láta sig leiða og styðja

lausnarann himnum á.

 

Þess má geta hér að forsíða bókarinnar er myndskreytt af Guðrúnu Jónsdóttur forstöðukonu Safnahúss í dag, þá fimm ára en hún var eitt þeirra barna sem nafna hennar gætti.

Guðrún Brynjúlfsdóttir lést í hárri elli árið 2006, þá orðin 102 ára en segja má að hún hafi lifað geysilegar breytingar á miklu umbrotaskeiði þjóðarinnar á 20.öld. Það fer vel á því að ljúka þessari stuttu kynningu á eftirfarandi vísu sem ber heitið Ósk: 

 

Ég vil, að allt lifandi lifi

og líði sem allra best,

að dauðinn sjálfur deyi,

eða dofni sem allra mest.

 

Samantekt: Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður.

 

Ljósmynd 1: Guðrún Brynjúlfsdóttir

Ljósmynd 2: Guðrún með Þórnýju móður sinni.

Ljósmynd 3: Forsíða Ýlustráa.

Categories:

Tags:

Comments are closed