Fimmtudaginn 1. nóv. kl. 19.30 verður opnuð í Hallsteinssal sögusýning um Hvítárbrúna við Ferjukot, enda fór vígsla hennar fram þennan sama dag árið 1928. Sýningarstjóri er Helgi Bjarnason frá Laugalandi í Stafholtstungum og hefur hann annast stærstan hluta faglegs undirbúnings. Verkefnið kom fyrst til tals í febrúar 2017, að frumkvæði Helga. Um er að ræða veggspjaldasýningu með fróðleik og fjölda ljósmynda.

Starfssvæði Safnahús nær allt frá Hvalfirði og vestur að Hítará. Verkefni hússins taka sterkt mið af því menningarsamfélagi sem þar er og þaðan kemur.  Þannig koma einstaklingar gjarnan beint að miðlun þekkingar um efni sem þeir þekkja vel til.  Samstarfið við Helga Bjarnason er dæmi um þetta og einnig mætti nefna sýninguna Gleym þeim ei (2015). Að þessu sinni er Hvítárbrúin viðfangsefnið enda á hún sér stað í hjarta fólks og gildi hennar fyrir svæðið á sínum tíma var óumdeilt.  Hvítá er með straumharðari vatnsföllum á Íslandi og brú yfir hana á sínum tíma skipti sköpum í samgöngum. Hönnun brúarinnar og smíði voru afrek miðað við þá verktækni sem þá var til staðar og hún þykir með fallegri mannvirkjum.

Heiður Hörn Hjartardóttir er hönnuður sýningarinnar, sem er hluti af dagskrá Menningararfsárs Evrópu 2018 og unnin í samvinnu við Minjastofnun Íslands og Vegagerðina

Verkefnið er helgað minningu Þorkels Fjeldsted, fyrrum bónda í Ferjukoti sem lést fyrir aldur fram árið 2014.  Þorkell lét sér alltaf mjög annt um að varðveita sögulegan fróðleik og miðla honum í lifandi frásögn. Hann bjó í návígi við brúna alla sína ævi og gegndi veigamiklu hlutverki í hátíðahöldum vegna 80 ára afmælis brúarinnar í ágúst árið 2008. 

Sýningin er styrkt af Kaupfélagi Borgfirðinga og Geirabakarí leggur til hluta veitinganna við opnunina, í minningu Þorkels.

Ýmsir aðrir hafa góðfúslega aðstoðað með margvíslegum hætti og færir Starfsfólk Safnahúss þeim innilegar þakkir sem lagt hafa sitt af mörkum til þessa viðamikla verkefnis.

Á opnunardaginn (kl. 19.30) verður stutt hátíðardagskrá á neðri hæð Safnahúss og gestum boðið að skoða sýninguna að henni lokinni.  

Sýningin stendur til 12. mars 2019 og verður opin kl. 13.00 – 18.00 virka daga eða eftir samkomulagi. Ókeypis aðgangur og allir velkomnir.

Ljósmyndir með frétt (GJ):
Hvítárbrúin, myndin er tekin frá veginum við Ferjukot.  
Þorkell Fjeldsted ávarpar hátíðarsamkomuna árið 2008.

Categories:

Tags:

Comments are closed