Nýhafið starfsár Safnahúss 2016 er helgað listrænni ljósmyndun í héraði og er fyrsta verkefnið í þeim anda sýning á ljósmyndum eftir Ómar Örn Ragnarsson sem er búsettur í Borgarnesi og rekur þar verslunina Tækniborg. Verður sýningin opnuð laugardaginn 23. janúar kl. 13.00.

 

Heiti sýningarinnar er Norðurljós og vísar það til myndefnisins, en myndirnar hefur Ómar tekið í Borgarnesi og nágrenni og segir Borgarnes vera afar vel í sveit sett til myndatöku af Norðurljósum. Af myndum hans má sjá að hann hefur næmt auga fyrir litbrigðum náttúrunnar og nær að kalla fram ævintýralega ljósadýrð á myndflötinn á þessum dimmasta tíma ársins.