Ragnar Ásgeirsson var fæddur í Kóranesi í Álftaneshreppi þann 6.nóv. 1895, sonur hjónanna Ásgeirs Eyþórssonar bónda og kaupmanns þar og konu hans Jensínu Bjargar Matthíasdóttur. Hann lauk lokaprófi frá dönskum Garðyrkjuskóla árið 1916 og lauk ennfremur prófi í skrúðgarðaarkitektúr. Lengst af starfsævi sinni var Ragnar Garðyrkjuráðunautur Búnaðarfélags Ísl. frá 1920-57. Frá sama ári var hann ráðunautur B.Í. um byggðasöfn og vann að uppsetningu þeirra víða um land, m.a. kom hann að stofnun Byggðasafns Borgarfjarðar sem stofnað var formlega árið 1960 en Ragnar safnaði munum í héraðinu á árunum 1954-1960 og heimsótti 80 bæi í því augnamiði.