Vorið

sínum laufsprota

á ljórann ber.

Ég fer

á fund við ástina

í fylgd með þér

og er

aldrei síðan

 

með sjálfum mér.

 

Þannig hljómar ljóðið Í fylgd með þér í ljóðabókinni Vísur Bergþóru eftir Þorgeir Sveinbjarnarson en bókin kom út árið 1955 og var hans fyrsta bók en Þorgeir var þá fimmtugur að aldri. Hann fæddist og ólst upp á Efsta-Bæ í Skorradal, sonur hjónanna Sveinbjarnar Bjarnasonar og Halldóru Pétursdóttir. Þorgeir stundaði nám í Hvítárbakkaskóla, lauk prófi frá sænskum lýðháskóla og stundaði framhaldsnám í Statens Gymnastikinstitut í Kaupmannahöfn.  Hann var íþróttakennari við Laugaskóla í Reykjadal frá 1931- 1944 og forstjóri Sundhallar Reykjavíkur frá 1945 til dauðadags.