„Meðan geislaglóðir
glæða líf á jörð,
vaki vættir góðir
verndi Borgarfjörð.“
Í dag hefði borgfirska skáldið Jóhannes Halldór Benjamínsson orðið áttræður, en hann lést árið 2008. Jóhannes var fæddur á Hallkelsstöðum í Hvítársíðu þann 11. mars 1933. Foreldrar hans voru Benjmín N. Jóhannesson og Elín Helga Jónsdóttir, hjón á Hallkelsstöðum og bjó Jóhannes í foreldrahúsum til ársins 1957 er hann fluttist til Reykjavíkur og vann þar m.a. við bifreiðaakstur og almenn verkamannastörf. Hann starfaði nokkuð að félagsmálum og sat m.a í trúnaðarmannaráði Dagsbrúnar í fjöldamörg ár.
Þann 12. mars 1960 kvæntist hann danskri unnustu sinni, Aase Johanne Sanko og saman eignuðust þau 5 börn og komust 4 þeirra á legg en sonur lést í frumbernsku.
Árið 1982 gaf Jóhannes út bókina „Héðan og þaðan“ sem hafði að geyma bæði frumkveðin ljóð og þýdd, m.a eftir sænska skáldið Gústaf Fröding. Þar má meðal annars finna ljóð sem flutt var við vísglu Félagsheimilisins Brúaráss 17. júní 1982.
Í tengslum við áttræðis afmæli Jóhannesar ákvað fjölskylda hans að gefa út nokkur áður óútgefin ljóð hans. Sú bók heitir „Ljóð og annar kveðskapur“ og kemur út í dag, 11. mars 2013. Hún er ekki hugsuð til almennrar sölu, heldur sem fallegt minningabrot fyrir fjölskyldu hans og velunnara. Eintak af bókinni hefur verið gefið til Héraðsbókasafns Borgarfjarðar.