Margmennt var í gærkvöldi á opnun heimildasýningar í Safnahúsi: Dýrt spaug -  aldarminning Guðmundar Sigurðssonar (1912-1972).  Guðmundur var einn helsti revíuhöfundur landsins á sínum tíma og vinsæll útvarpsmaður.  Hann var ættaður úr Hvítársíðu en ólst upp í Borgarnesi.

 

Dagskrá kvöldins var fjölbreytt og skemmtileg og sérstök stemning ríkti í sýningarsal fastasýningar hússins, Börn í 100 ár. Synir Guðmundar, Guðmundur og Óttar fluttu erindi um manninn og verk hans, Jóhanna V. Þórhallsdóttir tengdadóttir skáldsins söng revíulög og Bjarni Jónatansson lék undir á flygil barónsins á Hvítárvöllum. HLjóðfærið er engu líkt, það hefur hlýjan og klingjandi hljóm þrátt fyrir háan aldur (smíðað 1865). Var einstakt að heyra þann hljóm undir léttum fallegum söng í þessu umhverfi.

 

Að lokinni dagskrá skoðuðu gestir sýninguna um revíuskáldið og þáðu veitingar áður en haldið var heimleiðis.