Á þessu ári eru liðin fjörutíu ár síðan Hallsteinn Sveinsson (1903-1995) gaf mikið og merkilegt málverkasafn til Borgarness og Listasafn Borgarness var stofnað, en það er nú eitt þeirra fimm safna sem mynda Safnahús Borgarfjarðar. Það var einnig að frumkvæði Hallsteins að stytta Ásmundar bróður hans um kvæðið Sonatorrek var sett upp á Borg á Mýrum fyrir þrjátíu árum (1981). Hallsteinn fjármagnaði að mestu gerð afsteypunnar; safnaði ellilaunum sínum og reiddi fram stórfé til verkefnisins. Einnig gaf Ásmundur eftir höfundarlaun og systkini þeirra bræðra lögðu öll fram einhverjar fjárhæðir í þessa framkvæmd. Þá veittu Mýrasýsla, Kaupfélag Borgfirðinga og ríkið nokkurn styrk til verksins, en Hallsteinn Sigurðsson bróðursonur Hallsteins annaðist gerð afsteypunnar og uppsetningu.