Ein mynda Einars Ingimundarsonar málara hefur nú verið hengd upp í anddyri Safnahúss þar sem einnig er gerð grein fyrir höfundi hennar í nokkrum orðum. Þetta er liður í að miðla merkum safnkosti Listasafns Borgarness með tímabundnum örsýningum. Mynd Einars er máluð ofarlega í Húsafellslandi og sýnir landslagið í nágrenni Kaldadals, tignarlega jökla og fjöll. Staðhættir og sögulegar heimildir voru einmitt stór þáttur í verkum málarans og mörg þeirra eru góð heimild um liðinn tíma.